Segir ásakanir um misgjörðir á K2 vera afbrýðissemi

Mingma Gyalje.
Mingma Gyalje. Facebook/Mingma G

Nepalski fjallgöngumaðurinn Mingma Gyalje, sem ásamt fleiri Nepölum varð fyrstur til að klífa tind K2 að vetrarlagi í janúar, svaraði í gær alvarlegum ásökunum gagnvart hópnum, m.a. um að hópurinn hafi skorið á línur sem fjallgöngumenn nota sér til aðstoðar á tindinum. 

Mingma segir í langri færslu á Facebook síðu sinni að ásakanirnar séu meðal annars sprottnar upp af abrýðissemi þeirra hópa sem hugðust einnig klífa K2 í vetur en náðu ekki settu marki. Hann segir bæði sorglegt og fyndið að sjá viðbrögð þeirra göngumanna sem ekki höfðu erindi sem erfiði. 

„Munið þið afhverju K2 er kallað GRIMMT fjall og af hverju engin hefur náð að klífa það í 34 ár frá fyrstu tilraun að vetrarlagi árið 1987/1988?“ spyr Mingma í færslunni. Hann segir að aðrir gönguhópar hafi enga trú haft á nepalska hópnum þegar þeir hófu atlögu að tindinum 12. janúar. 

„Núna eru þeir fjallgöngumenn sem geta ekki melt okkar árangur og þeirra eigin mistök að reyna að skjóta á okkur með því að nota þá ástkæru göngumenn sem týnt hafa lífinu þarna,“ skrifar Mingma, en nokkrir fjallgöngumenn úr hópum sem yfirgáfu grunnbúðir fjallsins nýlega hafa sakað Mingma og félaga um að hafa skorið á línur í flöskuhálsi (Bottleneck) fjallsins og þannig mögulega stuðlað að því að John Snorri Sigurjónsson og samferðarmenn hans fórust á fjallinu, en þeir sáust síðast við flöskuhálsinn. 

Mingma segir ásakanirnar af og frá. Þá segir hann furðulegt að þær hafi ekki komið fram fyrr en rúmum mánuði eftir að nepalski hópurinn hélt heim á leið úr grunnbúðum fjallsins, eftir að þeim sem hafa uppi ásakanirnar hafði mistekist að klífa tindinn. 

The SAVAGE MOUNTAIN CONTINUES..... ^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^^ It is sad and at the same time funny to see the...

Posted by Mingma G on Sunnudagur, 28. febrúar 2021



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert