Refsa eigi krónprinsinum strax

Hatice Cengiz, unnusta Jamal Khashoggi.
Hatice Cengiz, unnusta Jamal Khashoggi. AFP

Tyrknesk unnusta sádiarabíska blaðamannsins Jamal Khashoggi sem var myrtur á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbul árið 2018 segir að refsa eigi krónprinsinum fyrir aðild að morðinu.

Bandarísk yfirvöld birtu á föstudag skýrslu þar sem fram kemur að krón­prins Sádi-Ar­ab­íu, Mohammed bin Salm­an, hafi veitt samþykki sitt fyr­ir morðinu á Khashoggi. Bandarísk yfirvöld hafa aftur á móti ekki lagt neinar refsiaðgerðir á hendur prinsinum en hann er í raun leiðtogi landsins þrátt fyrir að faðir hans sé konungur þess. 

Unnusta Khashoggi, Hatice Cengiz, segir á Twitter í dag að það sé grundvallaratriði að krónprinsinum, sem fyrirskipaði morð á saklausri manneskju, verði gert að sæta refsingu ekki seinna en núna. Með því sé ekki bara réttlætinu náð fram fyrir Khashoggi heldur einnig ólíklegra að gripið verði til svipaðra aðgerða síðar. 

Sádiarabíska utanríkisráðuneytið sendi frá sér yfirlýsingu á föstudag þar sem fram kemur að það hafni alfarið þeim ásökunum sem fram koma í skýrslu bandarísku leyniþjónustunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert