Ráðherra í vandræðum

Hingað til hefur Jens Spahn notið mikilla vinsælda sem heilbrigðisráðherra …
Hingað til hefur Jens Spahn notið mikilla vinsælda sem heilbrigðisráðherra í heimsfaraldri, en fréttaflutningur undanfarið hefur skyggt á dýrðarljómann. AFP

Heilbrigðisráðherra Þýskalands liggur undir ámæli vegna einkar illa tímasetts fundar í október með fjárhagslegum bakhjörlum sínum í pólitíkinni.

Ráðherrann, Jens Spahn, brýndi fyrir landsmönnum í útvarpsviðtali að morgni 20. október 2020 að halda sig heima: „Við vitum hvar smitin verða. Þau verða á skemmtanalífinu, þau verða þar sem fólk hittist hvort sem það er á heimilum eða á viðburðum, í partíum eða á klúbbnum.“

Á þessum tímapunkti voru dagleg smit farin að rjúka upp úr öllu valdi og ástandið tvísýnt. En eftir að hafa komið ofangreindu á framfæri við Þjóðverja fór Spahn sjálfur í ferð til Leipzig að hitta mikilvæga fjársterka styrktaraðila fyrir kosningabaráttuna sem hann á fyrir höndum í kosningum til þýska þingsins í haust.

Daginn eftir, 21. október, greindist Spahn sjálfur með veiruna.

Spiegel greindi frá þessum fundahöldum ráðherrans í tölublaði síðustu viku og síðan hafa stjórnmálalegir andstæðingar Spahn sætt lagi og gert margvíslegar athugasemdir við framferði hans.

„Jens Spahn var greinilega ekki fær um að uppfylla skyldu sína sem heilbrigðisráðherra og það á úrslitastundu í baráttunni við veiruna,“ er haft eftir Carsten Schneider, starfsmanni SPD, en flokkur hans er í stjórnarsamstarfi við CDU, flokk Spahns. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert