Draga úr líkum á alvarlegum veikindum um 80%

Bóluefni AstraZeneca.
Bóluefni AstraZeneca. AFP

Einn skammtur af bóluefni AstraZeneca eða Pfizer dregur úr líkum á því að sjúklingur þurfi meðferð við Covid-19 á sjúkrahúsi um meira en 80%. 

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem framkvæmd var á Englandi og BBC greinir frá. Bóluefnin fara að hafa áhrif þremur til fjórum vikum eftir bólusetningu samkvæmt rannsókninni, en í henni tóku þátt einstaklingar eldri en 80 ára sem fengið hafa bólusetningu. 

Ráðgjafar breskra yfirvalda á sviði heilbrigðismála hafa tekið niðurstöðum rannsóknarinnar fagnandi, en ítreka þó að þörf sé á tveimur skömmtum af efninu svo að það veiti sem besta vörn gegn veirunni. 

Niðurstöðurnar „mjög sterkar“

Matt Hancock, heilbrigðismálaráðherra Bretlands, sagði á blaðamannafundi á mánudag að niðurstöður rannsóknarinnar væru „mjög sterkar“. 

„Þetta gæti líka útskýrt hvers vegna innlagnir vegna Covid-19 á gjörgæslu meðal fólks sem er eldra en 80 ára í Bretlandi hafa farið niður í eins-stafs tölu á síðust vikum,“ sagði Hancock. 

Jon­ath­an Van-Tam, einn helsti ráðgjafi breskra stjórn­valda í heil­brigðismál­um, sagði á blaðamannafundinum að niðurstöðurnar væru vottur þess að bólusetningar „munu vonandi færa okkur yfir í allt annan heim á næstu mánuðum.“

Van-Tam sagði þó „algjörlega nauðsynlegt“ að gjöf seinni skammta bóluefnanna verði áfram liður í myndun hjarðónæmis við veirunni á Bretlandi. Rannsóknin dragi ekki úr mikilvægi seinni skammtsins. 

Van-Tam sagði miklar líkur á því að seinni skammtur bóluefnis muni „þroska ónæmissvar þitt, mögulega gera það víðtækara og nánast örugglega lengja það umfram það sem einungis fyrri skammturinn gerir.“ 

Rannsóknin bendir einnig til þess að bóluefni Pfizer, sem var tekið í notkun mánuði á undan AstraZeneca, dragi úr dauðsföllum af völdum veirunnar um 83% meðal einstaklinga yfir 80 ára. 

Ekki sannfærandi að AstraZeneca veiti eldra fólki ekki vernd

Þá bendir rannsóknin til þess að bóluefnin dragi úr líkum þess að einstaklingar yfir 70 ára fái nokkur einkenni Covid-19 um 60%, þremur vikum eftir að fyrri skammturinn er gefinn. 

Yfir 20 milljónir hafa fengið fyrri skammt bóluefnis á Bretlandi sem er yfir þriðjungur fullorðinna íbúa. 

Van-Tam sagði að með rannsókninni hefði réttmæti þeirrar ákvörðunar að gefa eldri einstaklingum í Bretlandi bóluefni AstraZeneca verið „greinilega sannað“.

Sumar þjóðir Evrópu, meðal annars Ísland, hafa ákveðið að gefa einstaklingum yfir 65 ára aldri ekki bóluefni AstraZeneca þar sem gögn úr rannsóknum á efninu taka að mestu leyti til áhrifa þess á yngra fólk. 

Van-Tam sagði á blaðamannafundinum í dag að sú ákvörðun breskra yfirvalda að bjóða öllum upp á efni AstraZeneca hafi verið tekin vegna þess að það væri einfaldlega „ekki sannfærandi“ að bóluefnið virki aðeins á yngra fólk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert