Tæknirisar sitja fyrir svörum

Sundar Pichai, Mark Zuckerberg og Jack Dorsey sitja fyrir svörum …
Sundar Pichai, Mark Zuckerberg og Jack Dorsey sitja fyrir svörum á fundi þingnefndar. AFP

Forstjórar tæknirisanna Facebook, Google og Twitter sitja í dag fyrir svörum á fundi verslunar- og viðskiptanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings. Tilgangur fundarins var könnun á því hvort löggjöf í kringum samfélagsmiðla veitti þeim of ríkar heimildir til að firra sig ábyrgð á ólöglegu efni sem þar er birt.

Til umræðu er svokallaður 230. kafli (e. Section 230), sem er internetlöggjöf sem gerir tækni- og samfélagsmiðlafyrirtækjum kleift að komast hjá lögsókn vegna efnis eða ummæla sem notendur þeirra birta. Þetta gerir þau í raun ábyrgðarlaus gagnvart notendum sínum þar sem komið er fram við þau sem hlutlausa millimenn, eins og t.d. blaðasala frekar en ritstjóra sem ráða því hvað er birt.  

Bæði demókratar og repúblikanar eru sammála um það að lögunum þurfi að breyta, en ástæður þeirra fyrir því eru ekki þær sömu. Repúblikanar halda því fram að lögin hafi greitt leiðina fyrir frjálslyndar skoðanir á samfélagsmiðlum, en demókratar leggja áherslu á að samfélagsmiðlunum hafi mistekist að halda uppi almennilegu eftirliti á hættulegri hatursorðræðu og upplýsingaóreiðu sem þrífst á netinu.

Fyrirséð er að forstjórarnir verði spurðir út í ritskoðun á …
Fyrirséð er að forstjórarnir verði spurðir út í ritskoðun á Donald Trump Bandaríkjaforseta. AFP

Fjarfundinn sitja Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, Sundar Pichai, forstjóri Google, og Jack Dorsey, forstjóri Twitter, og svara þeir spurningum nefndarmanna um fyrirtæki sín.

Í upphafsræðum sínum mældu bæði Pichai og Dorsey gegn því að löggjöfinni yrði breytt. „Ég hvet nefndina til að hugsa sig vel um áður en til breytinga á 230. kafla kemur, og að vera mjög meðvituð um afleiðingarnar sem slíkar breytingar gætu haft á fyrirtæki og neytendur,“ sagði Pichai.

Zuckerberg sagði hins vegar þörf vera á lagabreytingu. „Mér finnst þingið eiga að uppfæra lögin til að ganga úr skugga um að þau hafi þau áhrif sem þeim var ætlað að hafa,“ sagði hann, en minnti þó á að ógilding laganna gæti haft áhrif á tjáningarfrelsi á samfélagsmiðlum.

„Án 230. kafla... myndu miðlarnir líklega ritskoða enn meira efni til að komast hjá lögsóknum, og minni líkur væru á að þeir fjárfestu í tækni sem leyfir fólki að tjá sig á nýjan máta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert