120 þúsund færslum eytt

AFP

Alls hefur 120 þúsund færslum verið eytt á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram þar sem talið var að þeim hafi verið ætlað að hafa óeðlileg áhrif á bandarísku forsetakosningarnar. Alls hefur 2,2 milljónum auglýsinga verið synjað um birtingu á miðlunum að sögn aðstoðarforstjóra Facebook, Nick Clegg.

Þessu tengt hafa verið birtar viðvaranir á samfélagsmiðlum í eigu Facebook þar sem 150 milljónir dæma um upplýsingaóreiðu á netinu eru sýnd að sögn Clegg í viðtali við franska vikuritið Journal du Dimanche í gær. 

Facebook hefur sett aukinn kraft í að koma í veg fyrir að sagan frá forsetakosningunum 2016 endurtaki sig en þá var miðillinn notaður í tilraunum Rússa við að hafa áhrif á kosningarnar. Svipað og var gert í þjóðaratkvæðagreiðslunni um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu það sama ár.

Clegg segir að 35 þúsund starfsmenn starfi við öryggismál á samfélagsmiðlunum nú fyrir kosningarnar. Jafnframt hafi verið komið á samstarfi við 70 fjölmiðla, þar á meðal fimm í Frakklandi, við að staðreyna upplýsingar sem birtast á samfélagsmiðlum. AFP-fréttastofan er einn þeirra miðla. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert