Markaskorarinn tók ekki þátt

Tyrkir heilsa að hermannasið. Markaskorarinn Kaan Ayhan gengur aftur inn …
Tyrkir heilsa að hermannasið. Markaskorarinn Kaan Ayhan gengur aftur inn á völlinn eftir að hafa neitað að fagna með slíkri kveðju. AFP

Tyrknesku landsliðsmennirnir í knattspyrnu ögruðu Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, aftur í gærkvöldi þegar þeir heilsuðu að hermannasið í 1:1-jafnteflinu gegn Frakklandi í París. Markaskorari Tyrkja neitaði þó að taka þátt í umdeildum fagnaðarlátunum.

UEFA er nú þegar með fagnaðarlæti Tyrkja gegn Albönum á föstudagskvöld til skoðunar en Tyrkir hafa sagt fagnaðarlætin til heiðurs „djörfum hermönnum landsins“ eftir að innrásin í Sýrland hófst í síðustu viku.

Þegar varnarmaðurinn Kaan Ayhan jafnaði metin á 82. mínútu í París í gær fagnaði hann á „hefðbundinn“ hátt fyrir framan um 3.800 tyrkneska stuðningsmenn. 

Kaan Ayhan fagnar marki sínu á hefðbundinn hátt. Skömmu síðar …
Kaan Ayhan fagnar marki sínu á hefðbundinn hátt. Skömmu síðar lenti hann í rifrildi um hermannakveðju. AFP

Fyrirliðinn Burak Yilmaz fór síðan fyrir sínum mönnum þar sem þeir heilsuðu stuðningsmönnum að hermannasið og fólkið í stúkunni tók undir kveðjuna. Markaskorarinn Ayhan tók hins vegar ekki undir kveðjuna.

Varnarmaðurinn Merih Demiral hvatti Ayhan til að taka þátt og samkvæmt erlendum fréttamiðlum rifust leikmennirnir í smá stund vegna þess. Ayhan stóð fastur á sínu og skokkaði til baka á meðan margir félaga hans heiðruðu „djarfa hermenn Tyrklands“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert