Á fimmta tug hafa fundist látin í Japan

Umflotin heimili í borginni Nagano í gær.
Umflotin heimili í borginni Nagano í gær. AFP

Tugþúsundir japanskra björgunarmanna hafa unnið að því í gær og í dag að reyna að finna fólk á lífi í rústum húsa sem urðu illa úti vegna flóða, aurskriða og ofsavinds er fellibylurinn Hagibis gekk á land á laugardag. Fjörutíu og þrír hafa fundist látnir og að minnsta kosti sextán manns er saknað, samkvæmt fregnum japanskra fjölmiðla.

Shinzo Abe forsætisráðherra sagði í dag að björgunarmenn væru að gera sitt allra besta við leitina að og unnið yrði dag og nótt til þess að finna fólk á lífi.

Nokkuð mikil rigning hefur haft áhrif á björgunaraðgerðir og orðið til þess að hætta er á frekari aurskriðum, enda jarðvegurinn víða gjörsamlega gegnsósa. Ráðamenn hvetja fólk til þess að fylgjast vel með stöðunni og vera á varðbergi gagnvart skriðum og frekari flóðum nærri ám.

Vatn upp að mitti. Frá Nagano í dag.
Vatn upp að mitti. Frá Nagano í dag. AFP

Meiri úrkoma en í Reykjavík á meðalári

Úrkoman sem fylgdi Hagibis á einum sólarhring var á nokkrum stöðum meiri en samanlögð heildarúrkoma í Reykjavík er á meðalári, eða yfir 900 millimetrar. Elín Björg Jónasdóttir veðurfræðingur vekur athygli á þessu á Twitter-síðu sinni.

„Þegar loftslagssérfræðingar tala um aukna úrkomu í fellibyljum er ekki verið að ræða einhverjar skúradembur,“ skrifar hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert