Pesóinn féll í kjölfar kosninga

Mauricio Macri, forseti Argentínu, þykir ekki líklegur til að ná …
Mauricio Macri, forseti Argentínu, þykir ekki líklegur til að ná endurkjöri í forsetakosningum í október eftir niðurstöðu forkosninga sem fram fóru í gær. AFP

Gengi hlutabréfa og argentínska pesósins hafa hríðfallið í dag í kjölfar úrslita forkosninga forsetakosninga sem fram fóru í Argentínu í gær. Mauricio Macri, sitjandi forseti, hlaut 32,1% atkvæða en aðalkeppinautur hans, Alberto Fernandez, 47,7%.

Aðalvísitalan í Merval-kauphöllinni féll um 31% í dag og pesóinn féll mest um 30% gagnvart Bandaríkjadal. Þá féll gengi bréfa í skráðum félögum um allt að þriðjung. 

Forkosningar fyrir forsetakosningar í Argentínu hafa verið haldnar frá 2009 og þurfa frambjóðendur að hljóta yfir 1,5% kosningu til að njóta kjörgengis í forsetakosningunum.  

Kosið verður í október og eru litlar líkur taldar á að Macri nái að snúa stöðunni við sér í hag.  

„Þessi dýfa er bara forsmekkurinn að því sem verða skal,“ sagði Macri á blaðamannafundi í dag þar sem hann hét að snúa taflinu við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert