Airbus íhugar að yfirgefa Bretland

AFP

Flugvélaframleiðandinn Airbus hefur varað við því að félagið gæti yfirgefið Bretland ef landið gengur úr innri markaði Evrópusambandsins og tollabandalagi án þess að gera útgöngusamning. BBC greinir frá.

Í áhættumati sem Airbus gerði vegna Brexit og var birt í gær kemur fram að ef Bretland gengur bæði úr innri markaði sambandsins og tollabandalagi á sama tíma án þess að gera ráðstafanir þá myndi það „leiða til verulegrar röskunar og truflunar á framleiðslu félagsins í Bretlandi“ og að sú atburðarás myndi „neyða Airbus til að endurskoða fjárfestingar sínar og lengri tíma dvöl fyrirtækisins í Bretlandi“.

Airbus segir viðvörunina ekki vera hræðslutaktík heldur raunverulegan möguleika. Fjórtan þúsund manns starfa hjá flugvélaframleiðandanum í Bretlandi.

Therese May, forsætisráðherra Bretlands, hefur útilokað að Bretland verði áfram í tollabandalagi við Evrópusambandið og gengur formlega úr því 29. mars 2019. Ríkisstjórn Bretlands skoðar nú aðrar lausnir sem gætu auðveldað viðskipti milli Bretlands og þjóða innan Evrópusambandsins í kjölfar útgöngu Bretlands úr tollabandalaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert