Indverjar svara tollum Trumps

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, eru …
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, eru kannski ekki jafn líklegir til að faðmast nú og fyrir ári. AFP

Indland hefur ákveðið að bætast í hóp þeirra ríkja sem setja tolla á vörur frá Bandaríkjunum sem svar við innflutningstollum sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur sett á stál og ál. Samkvæmt indversku sjónvarpsstöðinni NDTV hafa indversk stjórnvöld sent Alþjóðaviðskiptastofnuninni tilkynningu þess efnis.

Meðal annars verður 50% tollur settur á mótorhjól með 800cc slagrými eða meira, 20% á möndlur, 20% á valhnetur og 25% á epli, en innflutningstollar Indlands munu í heild ná til 30 vörutegunda.

Indversk stjórnvöld segja aðgerðirnar varnarviðbrögð við verndartollum Bandaríkjanna á ál og stál. Áætlað er að tollarnir munu skila indverska ríkinu um 238 milljónir bandaríkjadala eða 26 milljörðum króna, á meðan áætlanir gera ráð fyrir að tollar Bandaríkjanna á ál- og stálvörur frá Indlandi skili bandaríska ríkinu um 241 milljónir bandaríkjadala eða rétt rúmlega 26 milljörðum króna.

Í takt við yfirlýsingar annarra

Fleiri aðilar hafa lýst því yfir undanfarið að þeir hyggjast innheimta tolla af vörum frá Bandaríkjunum, en áður hafði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lýst áformum sínum þess efnis. Í síðustu viku fréttist að öll aðildarríki sambandsins styðji áform framkvæmdastjórnarinnar.

Síðastliðinn föstudag tilkynnti Trump að hann hefði sett 25% toll á kínverskar vörur að andvirði 50 milljarða bandaríkjadollara eða tæplega 5,5 þúsund milljarða króna.

Kínverjar lýstu því yfir að þeir hyggjast svara í sömu mynt með því að setja innflutningstolla á 659 bandarískar vörur að andvirði sambærilegri upphæð, 50 milljarða bandaríkjadollara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert