Íbúar varaðir við uppvakningum

Úr þáttunum The Walking Dead.
Úr þáttunum The Walking Dead.

Íbúar í borginni Lake Worth í Flórída fengu skilaboð í farsíma sína aðfaranótt sunnudags þar sem varað var við rafmagnsleysi og uppvakningum. Guardian greinir frá.

„Rafmagnsleysis- og uppvakningaviðvörun til íbúa Lake Worth og Terminus,“ stóð í skilaboðunum, en Terminus er tilvitnun í borgarnafn í þáttunum The Walking Dead.

Þar stóð að yfir 7.300 heimili væru nú rafmagnslaus vegna mikillar uppvakningavirkni. Ekki væri ljóst hve lengi tæki að koma rafmagni aftur á.

Talsmaður Lake Worth-borgar sagði að verið væri að rannsaka atvikið og tók sérstaklega fram að engir uppvakningar væru í borginni um þessar mundir.

Hann sagði að 7.880 heimili hefðu orðið rafmagnslaus en að því hefði verið komið aftur á eftir 30 mínútur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert