Ungbörn fái að koma í þingsalinn

Öldungadeildarþingmaðurinn Tammy Duckworth kemur með dóttur sína í þinghúsið.
Öldungadeildarþingmaðurinn Tammy Duckworth kemur með dóttur sína í þinghúsið. AFP

Öldungadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt að ungbörnum verði heimilað að vera í þingsalnum. Var þetta gert eftir að Tammy Duckworth, öldungadeildarþingmaður frá Illinois, átti barn nýlega. Chicago Tribune segir reglugerðarbreytinguna hafa verið samþykkta einróma, þrátt fyrir nokkrar áhyggjur karlkyns þingmanna af eldri kynslóðinni, því hvort slíkt myndi brjóta í bága við „velsæmi“.

Duckworth eignaðist dóttur, Maile Pearl, þann 9. apríl sl. Er hún eini öldungadeildarþingmaðurinn sem til þessa hefur átt barn á sama tíma og hún situr í öldungadeildinni. Duckworth hyggst halda áfram starfi sínu og vill geta greitt atkvæði um þau mál sem upp koma, en reglur öldungadeildarinnar kveða á um að þingmaðurinn þurfi að vera á staðnum til að greiða atkvæði.

Duckworth lagði því til að ungabörn yrðu leyfð í þingsalnum, en að hennar sögn er þetta ein leið til að hjálpa til við að „færa öldungadeildina inn í 21. öldina.

Þó tillagan væri samþykkt einróma segir öldungadeildarþingmaðurinn Amy Klobuchar, sem ræddi tillöguna í einrúmi við þingmenn um nokkurra vikna skeið áður en hún var lögð fram, voru ekki allir eldri karlkyns þingmenn á því að þetta væri viðeigandi. Segir hún þá hafa sett spurningu við það hvort að bleyjuskipti og jafnvel brjóstagjöf í þingsalnum myndu fylgja í kjölfarið.

Töldu nokkrir þeirra heppilegra að börn yrðu heimiluð í fatahengi þinghússins, þar sem einnig er hægt að greiða atkvæði. Slík breyting hefði þó ekki gagnast Duckworth, sem missti fætur er hún þjónaði sem hermaður í Írak, þar sem ekki er aðgengi fyrir hjólastól í fatahenginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert