Stríðsherra dæmdur í 30 ára fangelsi

Teikning af Mohammed Jabbateh eða Frumskógar-Jabbah í réttinum.
Teikning af Mohammed Jabbateh eða Frumskógar-Jabbah í réttinum.

Bandarískur dómstóll dæmdi í dag líberískan stríðsherra, sem þekktur er undir nafninu „Frumskógar Jabbah“ til 30 ára fangelsisvistar fyrir að ljúga til um þátt sinn í borgarastríði Líberíu.

Var Mohammed Jabbateh dæmdur sekur um svik á innflytjendalögum og fyrir að fullyrða ranglega við bandarísk yfirvöld á tíunda áratug síðustu aldar að hann hefði aldrei tilheyrt neinum uppreisnarhópi.

Sagði eitt vitna í málinu réttinum að Jabbateh hafi fyrirskipað að hjarta fanga yrði eldað fyrir stríðsmenn sína. Um 250.000 manns létu lífið í 14 ára löngu borgarastríði í landinu.

BBC segir Jabbateh hafa flutt til Bandaríkjanna seint tíunda áratug síðustu aldar og að hann hafi búið í „Litlu Líberíu“ hverfinu í Philadelphiu þar til hann var handtekinn í apríl 2016.

Fram kom við réttarhöldin að að Jabbateh var yfirmaður tveggja hersveita – Ulimo, sem síðar varð Ulimo K – er sveitirnar tóku þátt í grimmúðlegum átökum í landinu snemma á tíunda áratugnum.

Lét elda hjarta úr föngum

Lét saksóknari í málinu fljúga vitnum frá Líberíu til Bandaríkjanna til að bera vitni um ásakanir um dráp, nauðganir, limlestingar og mannátt sem að Jabbateh hafi ýmis stundað sjálfur, eða fyrirskipað sveitum sínum að gera.

Segir BBC þrjú vitni hafa greint frá því er hjarta var fjarlægt úr föngum, m.a. hafi eiginkonu þorpshöfðingja nokkurs verið skipað að elda harta eins bæjarbúa og síðar eiginmanns síns.

„Þessi maður ber ábyrgð á grimmdarverkum sem munu hafa áhrif á komandi kynslóðir í Líberíu,“ sagði ríkissaksóknarinn William McSwain. „Hann hélt að hann gæti falið sig hér, en þökk sé ákveðni og hugmyndagleði saksóknara okkar og rannsakenda þá gat hann það ekki. Þessi ákæra var eini möguleikinn sem lögin báðu upp á og vonandi fá fórnarlömb hans með dóminum að minnsta kosti réttlæti að hluta.“

Aldrei hefur verið komið á fót stríðsdómstól í Líberíu vegna borgarastyrjaldarinnar og gegna raunar enn margir sem grunaðir eru um stríðsglæpi valdastöðum í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert