Lést þegar pétanque-kúla sprakk

Pétanque er vinsælt kúluspil í Frakklandi.
Pétanque er vinsælt kúluspil í Frakklandi. AFP

Rúmlega þrítugur Frakki lést í gær eftir að járnkúla, sem er notuð við að spila pétanque, sprakk í útigrilli mannsins í bænum Boulou í Pyrénées-Orientales.

Samkvæmt fréttum franskra fjölmiðla hafði kúlan verið skilin eftir ofan í grillinu og þegar maðurinn kveikti í kolunum hitnaði kúlan svo mikið að hún sprakk.

Slysið átti sér stað þegar maðurinn var að grilla fyrir fjölskyldu sína í hádeginu í gær. Maðurinn lést þegar járnstykki úr kúlunni þeyttust í höfuð hans. Þrjú ung börn ásamt föður sínum og móður mannsins sem lést voru í garðinum þegar slysið varð en ekkert þeirra sakaði.

Slökkviliðsmenn segja í viðtali við France Info að þeir hefðu ekki haft hugmynd um að pétanque-kúlur gætu sprungið við mikinn hita. Ekki er vitað hvort kúlunni hafi verið komið fyrir í grillinu vísvitandi eða um óviljaverk hafi verið að ræða.

L'Indépendant

Paris Match

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert