Vilja að Diaz-Canel bindi enda á kúgun

Bandaríkin hafa með semingi viðurkennt nýjan forseta Kúbu. Þau segja að hann hafi öðlast völd á ólýðræðislegan hátt en hvetja hann um leið til að veita almenningi í landinu aukið pólitískt frelsi.

Miguel Diaz-Canel sór í dag embættiseið sem forseti Kúbu og tók hann þar með við af Raul Castro.

Þetta er í fyrsta sinn í sex áratugi sem enginn sem ber nafnið Castro stjórnar Kúbu.

„Það veldur okkur vonbrigðum að kúbversk stjórnvöld hafi ákveðið að þagga niður í sjálfstæðum röddum og halda áfram þvingandi einveldi í landinu í stað þess að gefa fólkinu val í gegnum frjálsar og sanngjarnar kosningar þar sem keppt er um atkvæði kjósenda,“ sagði talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, Heather Nauert.  

„Nýr forseti Kúbu ætti að taka ákveðin skref í að bæta líf kúbversku þjóðarinnar, virða mannréttindi, hætta allri kúgun og auka pólitískt og efnahagslegt frjálsræði.“

Bandaríkin og Kúba hófu diplómatísk samskipti á nýjan leik árið 2015. Viðskiptabann Bandaríkjanna gagnvart Kúbu er þó að stórum hluta enn í gildi.

Miguel Diaz-Canel, forseti Kúbu.
Miguel Diaz-Canel, forseti Kúbu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert