Hrósa flugmanninum fyrir hugrekki

Tammie Jo Shults, flugmaður vélarinnar er hér til vinstri.
Tammie Jo Shults, flugmaður vélarinnar er hér til vinstri. Ljósmynd/MidAmerica Nazarene

Farþegar í flugvél Southwest Airlines sem varð fyrir hnjaski í gær eftir að hreyfill vélarinnar sprakk á miðju flugi hrósa flugmanninum Tammie Jo Shults í hástert og kalla hana hetju, fyrir að hafa lent flugvélinni í heilu lagi á flugvellinum í Fíladelfíu.

Tammie þjónaði áður í tíu ár í bandaríska hernum, þar sem hún var orrustuflugmaður. Farþegar segja það henni að þakka að ekki fór verr, en 149 manns voru um borð í vélinni, sem var á leið frá New York til Dallas.

Einn farþegi fékk hjartaáfall og lést og farþegar hafa greint frá því að litlu hafi munað að kona hafi sogast út úr flugvélinni eftir að brot úr hreyfli flugvélarinnar rifu gat á skrokkinn.

„Ég mun senda henni jólakort – ég get sagt þér það – með gjafaskírteini fyrir að hafa komið mér til jarðar,“ hefur fréttaveitan AP eftir farþeganum Alfred Tumlinson frá Texas.

Annar farþegi vélarinnar, Diana McBride Self, birti mynd af Shults á Facebook-síðu sinni þar sem hún hrósar henni og kallar hana sanna bandaríska hetju, en eftir að vélinni hafði verið lent í Fíladelfíu ræddi Shults við farþega vélarinnar og spurði þá um líðan.

„Þakkir til hennar fyrir þekkingu, leiðsögn og hugrekki í ógnvænlegum aðstæðum,“ skrifar Diana.

Yfirveguð samskipti við flugturninn

„Southwest 1380, við erum á einum hreyfli,“ sagði Shults við flugumferðarstjóra eftir að atvikið átti sér stað, en yfirvöld hafa birt birt samskiptin sem áttu sér stað þeirra á milli.

„Það vantar hluta af flugvélinni svo við munum þurfa að hægja aðeins á okkur,“ sagði Tammie og bætti því við að slasaðir farþegar væru um borð í vélinni, en nokkrir farþeganna kenndu sér lítillega meins eftir að flísar úr hreyflinum þeyttust inn í vélina ásamt glerbrotum.

Karlkyns flugumferðarstjóri spurði þá hvort eldur logaði í flugvélinni.

„Nei, hún logar ekki, en það vantar hluta úr henni. Þau sögðu að það væri hola, og uu.. að einhver hafi farið út,“ sagði Shults þá af yfirvegun.

Elaine Chao, samgöngumálaráðherra Bandaríkjanna hefur sömuleiðis hrósað Shults og öðrum áhafnarmeðlimum Southwest fyrir að hafa komið í veg fyrir að verr færi.

Rannsakendur skoða hreyfil vélarinnar, sem sprakk skömmu eftir flugtak frá …
Rannsakendur skoða hreyfil vélarinnar, sem sprakk skömmu eftir flugtak frá New York. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert