Stærstu farþegaþotunni snúið til Keflavíkur

Airbus A380 farþegaþota flugfélagsins Etihad Airways á flugvellinum í morgun.
Airbus A380 farþegaþota flugfélagsins Etihad Airways á flugvellinum í morgun. Ljósmynd/Jóhann Bjarni Kjartansson

Airbus A380 farþegaþota flugfélagsins Etihad Airways lenti á Keflavíkurflugvelli nú morgun með veikan farþega. Vélin var á leið frá Abu Dhabi til New York þegar farþeginn veiktist og var þá ákveðið að lenda hér.

„Þá er tekin sú  ákvörðun að lenda hér, eins og gerist reglulega þegar að eitthvað svona kemur upp á. Þá er lent hér,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia.

Gert er ráð fyrir að vélin haldi ferð sinni til New York áfram um ellefuleytið.

Airbus A380 er stærsta farþegaþota heims og  getur tekið allt að 853 farþega. Guðjón segir þetta þó ekki í fyrsta skipti sem slík vél lendir á Keflavíkurflugvelli.

„Það gerist svona 2-3 sinnum á ári og í öllum tilfellum er um að ræða vél sem er með veikan farþega,“ segir hann. „Okkar brautir eru alveg nógu breiðar og stórar til að taka á móti svona vélum, en mögulega þyrfti að gera einhverjar breytingar á flugstöðinni til að taka á móti svona vélum ef að þær ættu að lenda hér að staðaldri.“

Guðjón bætir við að Airbus A380 vélarnar hafi einnig komið til landsins  er verið var að smíða þær. „Þá komu þær hingað í hliðarvindsprófanir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert