Kardínáli og kynferðisbrotamaður látinn

Keith O'Brien. Mynd úr safni tekin árið 2005.
Keith O'Brien. Mynd úr safni tekin árið 2005. AFP

Keith O'Brien, fyrrverandi kardí­náli og æðsti yf­ir­maður kaþólsku kirkj­unn­ar í Skotlandi, sem sagði af sér vegna kynferðisbrota er látinn 80 ára að aldri. Hann lést skömmu eftir að hafa dottið og brotið viðbein, en hann hlaut jafnframt höfuðáverka. BBC greinir frá

O'Brien sagði af sér árið 2013 vegna ásakana um að hafa brotið kynferðislega gegn fjór­um prest­um. Brotin áttu sér stað á áttunda áratugnum þegar prestarnir voru að stíga sín fyrstu skref í starfi. Þrír þeirra störfuðu enn sem prestar þegar þeir lögðu fram kvörtun til páfag­arðs. 

Í yfirlýsingu vegna málsins á sínum tíma sagði sagði hann að það hafi komið tím­ar meðan hann var í þjón­ustu kaþólsku kirkj­unn­ar „að kyn­ferðis­lega hegðun mín hef­ur ekki staðið þær kröf­ur sem gerðar eru til mín sem prests, erki­bisk­ups og kardí­nála.“ Hann bað einnig um fyr­ir­gefn­ingu þeirra sem hann hafi sært.

Málið fór ekki inn á borð lögreglunnar heldur lét hann af stöfum, viðurkenndi brot sín og baðst afsökunar. 

O'Brien gagn­rýndi sem kardí­náli sam­kyn­hneigð mjög harðlega og sagði m.a. að hjóna­band sam­kyn­hneigðra ógnaði and­legri og lík­am­legri heilsu sam­kyn­hneigðra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert