Alþjóðlegt teymi rannsakar eitursýnin

Sergei Skripal og dóttir hans Yulia.
Sergei Skripal og dóttir hans Yulia.

Alþjóðlegt teymi sérfræðinga mun fá aðgang að sýnum sem tekin voru í tengslum við rannsókn breskra yfirvalda á taugaeitrinu sem beitt var gegn Skripal-feðginunum í bænum Salisbury á Englandi í byrjun mánaðarins.

Teymi frá Stofnun um bann við efnavopnum (OPCW) sem mun koma til starfa í herstöðinni í Porton Down þar sem rannsóknir á eitruninni hafa farið fram.

Breskir sérfræðingar segja að niðurstöður rannsóknar á sýnunum hafi sýnt að um sé að ræða taugaeitur sem var þróað og framleitt í Rússlandi á kalda stríðsárunum. Hafa bresk stjórnvöld sakað þau rússnesku um að standa að baki eiturefnaárásinni á Skripal-feðginin. Sergei Skripal og dóttir hans Yulia fundust meðvitundarlaus á bekk í smábænum Salisbury þann 4. mars. Skripal var gagnnjósnari fyrir Breta um aldamótin.

Vladimír Pútín, sem var endurkjörinn forseti Rússlands í gær, hefur harðneitað aðild að árásinni en segir Rússa tilbúna að veita aðstoð við rannsókn málins.

Frétt BBC.

Feðginin liggja enn þungt haldin á sjúkrahúsi. Heimildir innan lögreglunnar herma að mögulegt sé að eitrinu hafi verið dælt inn um miðstöð bíls þeirra.

Talið er að rannsókn málsins muni taka fleiri vikur og jafnvel mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert