Rússar leiddu Assad í átt að sigri

Síðustu vikur hafa hundruð almennra borgara fallið í austurhluta Ghouta-héraðs …
Síðustu vikur hafa hundruð almennra borgara fallið í austurhluta Ghouta-héraðs í árásum Rússa og Sýrlandshers. AFP

Síðsumars árið 2015 höfðu herir Bashars al-Assads Sýrlandsforseta misst stærstan hluta landsins í hendur uppreisnarmanna. Þá hafði stríðið staðið í fjögur og hálft ár. Uppreisnarmenn höfðu m.a. náð Aleppo, miðstöð verslunar landsins og fjölmennustu borg þess, að mestu á sitt vald. Assad varð að hverfa frá þeirri áætlun sinni að berjast á öllum vígstöðum. Herir hans höfðu í raun hörfað til höfuðborgarinnar Damaskus og næsta nágrennis hennar. 

Eftir linnulausa bardaga áranna á undan var mátturinn úr stjórnarhernum. Og liðhlauparnir  orðnir margir. 

Hann var ekki einn um að hafa áhyggjur af ástandinu. Íranar voru einnig uggandi. Þeir voru yfirlýstir stuðningsmenn Assads og sáu í hvað stefndi þrátt fyrir að í Sýrlandi væru þá þegar skæruliðar þeim hliðhollir sem og skæruliðar tengdir líbönsku Hezbollah-samtökunum að berjast við hlið stjórnarhersins.

Snögg breyting

En svo tók stríðið óvænta stefnu og smám saman fór Assad að ná undirtökunum. Og talið er að rekja megi þau umskipti til heimsóknar íransks hershöfðingja, Qasem Soleimani, til Rússlands, að því fram kemur í ítarlegri fréttaskýringu CNN um upphaf þátttöku Rússa í stríðinu í Sýrlandi. 

Þétt handaband bandamannanna Assads og Pútíns.
Þétt handaband bandamannanna Assads og Pútíns. AFP

Soleimani hafði séð með eigin augum að allt gekk á afturfótunum í stríðsrekstri Assads. Þessi fundur hans með rússneskum stjórnvöldum í Moskvu átti eftir að bjarga Assad og stjórn hans en kalla enn meiri þjáningar og eyðileggingu yfir Sýrlendinga. Um 350 þúsund hafa fallið í stríðinu sem nú hefur staðið í sjö ár. Um helmingur þjóðarinnar hefur flúið heimili sín, milljónir til annarra landa. 

Íran og Sýrland eru m.a. tengd af trúarlegum ástæðum. Flestir sem koma að stjórn Assads tilheyra minnihlutahópi múslíma sem er angi af shía-íslam sem aftur eru ríkistrúarbrögð Írans. Skýringar á áhuga Rússa á þróun mála í Sýrlandi eru af öðrum toga. 

Niðurbrotið hefst

 Næstu tvö árin styrktu Rússar og Íranar stoðir stjórnarhersins með ýmsum ráðum og voru því lykilþátttakendur í því að hefja niðurbrot byltingar uppreisnarmanna sem virðist nú, þegar eitt helsta vígi þeirra, Austur-Ghouta, er við það að falla, vera að takast. 

Aðgerðirnar hafa hins vegar tekið mun lengri tíma en Rússar höfðu átt von á. Í stað nokkurra mánaða hernaðar hefur þátttaka þeirra nú staðið í um 30 mánuði eða í um tvö og hálft ár. Á þeim tíma hefur Vladimír Pútín Rússlandsforseti að minnsta kosti þrívegis lýst því yfir opinberlega að markmiðinu væri náð og að herinn væri á heimleið. 

Börn á sjúkrahúsi í Aleppo í kjölfar árása Rússa og …
Börn á sjúkrahúsi í Aleppo í kjölfar árása Rússa og Sýrlandshers á borgina. AFP

Rússar hafa lengi verið bandamenn stjórnvalda í Sýrlandi. Þeir óttuðust að Assad yrði steypt af stóli og þar með myndu áhrif þeirra í landinu og í Miðausturlöndum þverra. Ákveðið var því að hefja lofthernað af fullum krafti á sama tíma og íranskir skæruliðar og hermenn þéttu raðir sínar á jörðu niðri. Var þetta einnig að einhverju leyti sagt andsvar Rússa við því að Bandaríkjamenn höfðu staðið við bakið á ákveðnum hópum uppreisnarmanna í landinu.

Er allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna kom saman í september árið 2015 sagði Pútín að afskipti vesturveldanna að átökunum hefðu reynst klúður. „Í stað lýðræðis og framfara þá er þar nú að finna ofbeldi, fátækt og algjört virðingarleysi fyrir mannréttindum.“

Á meðan hann flutti ræðu sína voru fyrstu rússnesku herþoturnar um það bil að lenda á herstöðvum í Sýrlandi. Fréttaskýrendur segja að með þessu hafi hann viljað sýna öllum hernaðarmátt Rússlands og senda stjórn Baracks Obama Bandaríkjaforseta kaldar kveðjur í leiðinni. Rússar hafa ítrekað síðan beitt neitunarvaldi sínu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um vopnahlé í Sýrlandi og aðrar aðgerðir sem bandalagið taldi geta nýst til að stilla til friðar í landinu. Þeir hafa sum sé reynst Sýrlandsstjórn traustur bandamaður gegn fyrirætlunum alþjóðasamfélagsins. 

Karlmaður sem særðist í loftárás í Austur-Ghouta bíður læknisaðstoðar á …
Karlmaður sem særðist í loftárás í Austur-Ghouta bíður læknisaðstoðar á sjúkrahúsi. AFP

Skotmörkin ekki bundin við hryðjuverkahópa

Yfirlýst markmið Rússa var að útrýma hryðjuverkahópum í Sýrlandi. Staðreyndin var hins vegar sú að skotmörkin voru einnig uppreisnarhópar sem nutu stuðnings Bandaríkjamanna og landa við Persaflóa. Fljótlega fóru mannréttindasamtök, bandarísk stjórnvöld og fleiri að saka Rússa um að beina spjótum sínum að sjúkrahúsum í Sýrlandi og öðrum innviðum sem almenningur í landinu stólaði á.

Á jörðu niðri gengu íranskir hermenn og skæruliðar til liðs við Sýrlandsher í norður- og norðvesturhluta landsins. Þar sem uppreisnarhóparnir höfðu ekki yfir sambærilegu vopnabúri að ráða áttu þeir sífellt erfiðara með að verjast.

Fundarsalur mannréttindaráðs Sameinuu þjóðanna sem hefur íetrakað á síðustu árum …
Fundarsalur mannréttindaráðs Sameinuu þjóðanna sem hefur íetrakað á síðustu árum fjallað um átökin í Sýrlandi og hugmyndir að aðgerðum til að stöðva þær. AFP

Ríkisstjórn Obama hafði áhyggjur af því að vopn sem hún myndi afhenta uppreisnarhópum gætu fallið í hendur rangra aðila og valdi því bandamenn sína úr þeirra röðum af kostgæfni. Þannig lagði hún frekar sín lóð á vogarskálarnar með herþjálfun. Sá stuðningur dugði skammt gegn tvíefldum herjum Sýrlandsforseta. Þá lögðu bandarísk stjórnvöld áherslu á loftárásir gegn vígamönnum Ríkis íslams í landinu en ekki gegn stjórnarhernum. 

Sundrung í röðum uppreisnarmanna

Ofan á þetta allt saman hefur svo lengi verið mikil sundrung meðal uppreisnarmanna. Þeir eru langt frá því að vera samstíga hópur heldur hefur jafnvel komið til átaka milli þeirra. Vopnuðu uppreisnarhóparnir sem berjast fyrir því að koma Assad frá völdum hafa til þess ólíkar ástæður. Hin pólitíska stjórnarandstaða í landinu býr ekki yfir sínum eigin vopnuðu sveitum. 

Stúlka á sjúkrahúsi í Hamouria í Ghouta. Stjórnarherinn náði þeim …
Stúlka á sjúkrahúsi í Hamouria í Ghouta. Stjórnarherinn náði þeim bæ á sitt vald fyrir helgi og þrengdi þar með verulega að uppreisnarmönnum. AFP

Hver tilraun Sameinuðu þjóðanna á fætur annarri til vopnahlés runnu út í sandinn og sömuleiðis skiluðu friðarviðræður engum árangri. Hernaðaráætlun Assads varð svo sú að skipta sér ekki af Ríki íslams, sem Bandaríkin og hópar uppreisnarmanna sáu um að berjast gegn. Sömuleiðis lét hann Kúrda í norðri í friði en þeir höfðu á nokkrum árum náð yfirráðum yfir stórum landssvæðum, m.a. frá Ríki íslams. 

Herkænskunni beitt grimmt

Assad einbeitti sér fyrst og fremst að svæði sem kalla mætti hryggjarstykki Sýrlands; norður af Damaskus og til borganna Homs og Hama. Hann herjaði á Idlib-hérað úr lofti, eitt helsta vígi uppreisnarhópanna, og þeir höfðu þar með ekki hernaðarlegan styrk til að berjast á öðrum vígstöðvum.

Í mars árið 2016 tilkynnti Pútín enn og aftur að markmiðum með veru hers hans í landinu væri náð og að dregið yrði þá þegar úr liðsstyrknum. En allt kom fyrir ekki.

Um mitt þetta sama ár hóf Sýrlandsher svo með stuðningi Rússa, Hezbollah og íranskra hermanna hið blóðuga umsátur sitt og áhlaup á Aleppo. Aðgerðirnar voru óhugnanlegar og tilgangur þeirra sá að etja uppreisnarhópum hverjum á móti öðrum. Almenningur í borginni lifði í stöðugum ótta, var innlyksa án nauðþurfta. Eftir fjölmargar mannskæðar árásir var samið um brottflutning uppreisnarmanna og fjölskyldna þeirra til Idlib-héraðs. 

Rússnesk herþota á lofti yfir bænum Arbin í Austur-Ghouta.
Rússnesk herþota á lofti yfir bænum Arbin í Austur-Ghouta. AFP

Með sigrinum í Aleppo var Assad búinn að veikja uppreisnina verulega. Helstu yfirráða svæði uppreisnarhópanna voru þá orðin í Idlib-héraði og í austurhluta Ghouta-héraðs, skammt frá Damaskus. 

Eftir Aleppo snéri Assad sér loksins að vígamönnum Ríkis íslams, m.a. í Deir Ezzor.

Pútín mætti í óvænta heimsókn til Sýrlands í desember á síðasta ári. Hann endurtók sönginn frá árinu áður og sagði að nú hefðu hermenn hans barist „snilldarlega“ og gætu „snúið aftur heim sigursælir“. Hann skipaði stórum hluta herliðs síns að gera einmitt þetta; fara aftur heim til Rússlans. En verkefninu var ekki lokið. Og Rússarnir fjölmenntu aftur til Sýrlands.

Síðustu vikur hefur sjónum verið beint að austurhluta Ghouta-héraðs. Þar hafa Rússar tekið þátt í linnulausum loftárásum. Uppreisnarmenn sem þar hafa farið með yfirráð eru ekki samstæð fylking. Því tókst Assad og her hans að kljúfa svæðið í þrennt og sækja svo að hverjum og einum hluta þess af fullu afli.

Fjórðungur þeirra sem fallið hafa í stríðinu í Sýrlandi síðustu …
Fjórðungur þeirra sem fallið hafa í stríðinu í Sýrlandi síðustu sjö árin eru börn. Þúsundir þeirra hafa særst í árásum. AFP

Enga allsherjar uppgjöf er að finna á uppreisnarmönnum sem enn hafa töluverð tök í Idlib-héraði í norðvesturhluta landsins. Þangað hafa nú stríðsmenn úr þeirra röðum flúið frá Ghouta, rétt eins og félagar þeirra í Aleppo gerðu árið 2016.

Staða Assads sterk

Áhrif Rússa á gang stríðsins hafa því verið stórkostleg. Ekki er hægt segja með vissu hvað hefði gerst án þeirra. Þeir hafa styrkt stöðu Assads svo um munar og nú verður að teljast ólíklegt að honum verði steypt af stóli, að minnsta kosti í bráð. Bandaríkjamenn hafa ýjað af lofthernaði en ekkert bólar á þeim aðgerðum enn, þrátt fyrir augljósa örvæntingu og þjáningar fólksins í Ghouta. 

Lík á gólfi bráðabirgðasjúkrahúss í borginni Douma í austurhluta Ghouta-héraðs.
Lík á gólfi bráðabirgðasjúkrahúss í borginni Douma í austurhluta Ghouta-héraðs. AFP

Önnur breyting hefur orðið á hinu pólitíska landslagi. Framan af stríðinu í Sýrlandi kölluðu ýmsir leiðtogar landa á borð við Bandaríkjanna, Tyrklands og Sádi-Arabíu reglulega eftir því að Assad myndi víkja og ný stjórn taka við. Þær raddir heyrast ekki lengur úr þeirri átt. 

Assad á því Rússum mikið að þakka. Þeir hafa nú komið sér vel fyrir á nokkrum herstöðvum í Sýrlandi og þannig styrkt stöðu sína gríðarlega við Miðjarðarhafið og í Miðausturlöndum. Þar er líklega komin helsta skýringin á því að þeir hafa blandað sér í jafn miklum mæli í stríðið eins og raun ber vitni. Þeim hefur tekist, eftir nokkurt hlé, að sýna hernaðarmátt sinn og herkænsku í öllu sínu veldi. Og tekið sér stöðu eins og svo oft áður gegn Bandaríkjunum í aðgerðum sínum.

Rússar eiga orðið fáa vini meðal vesturveldanna, ekki síst núna í kjölfar ásakana um að þeir hafi komið að morðtilræði á rússneskum feðginum í Bretlandi. En þeir eiga að minnsta kosti einn hauk í horni. Sá er hins vegar óútreiknanlegur. Eins og segir í fréttaskýringu Neil MacFarquhar, blaðamanns New York Times: „Stærsta vandamál Rússa í Sýrlandi er bandamaður þeirra, Assad forseti.“

Greinin er byggð á fréttum BBC, Al Jazeera, CNN, Huffington Post, New York Times, AFP o.fl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert