Rannsaka hópnauðgun knattspyrnumanna

Gaetan Antony Varenne.
Gaetan Antony Varenne. Ljósmynd/Twitter

Lögreglan í Ísrael ætlar að hefja rannsókn á myndskeiði þar sem sjá má nokkra knattspyrnumenn sem grunaðir eru um að misnota konu kynferðislega.

Sóknarmaðurinn Gaetan Antony Varenne, sem leikur með Beitar Jerusalem, hefur verið í kastljósinu síðan á fimmtudag eftir að myndskeiðinu var dreift á samfélagmiðlum.

„Lögregla hefur ákveðið að málið verði rannsakað eftir að hún sá myndskeið þar sem meðal annars má sjá knattspyrnumann sem grunaður er um misnotkun.“ Þetta kom fram í yfirlýsingu lögreglu vegna málsins en Varenne var ekki nafngreindur.

Ísraelskir fjölmiðlar segja að áðurnefnt myndskeið sé gamalt og hafi skotið aftur upp kollinum þegar því var dreift um samfélagmiðla í síðustu viku. Á því má sjá nokkra knattspyrnumenn, þar á meðal Varenne, og konu.

Einnig er greint frá því að óvíst sé hvort konan sé með meðvitund. Varanne og félagar hans sjást misnota og gera lítið úr konunni.

Þingkonan Merav Michaeli tilkynnti á Twitter í dag að hún hefði lagt fram kvörtun vegna Varenne. „Ég lagði fram opinbera kvörtun vegna þessarar hræðilegu hópnauðgunar þar sem sjá má Varanne. Ég krefst þess að málið verði rannsakað,“ skrifaði hún.

Varenne hefur sagt liði sínu „að samþykki hafi verið veitt fyrir öllu sem sást á myndskeiðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert