Þjófurinn skilaði hljóðfærinu

Ophelie Gaillard.
Ophelie Gaillard. AFP

Átjándu aldar sellói, sem er metið á yfir eina milljón evra, 126 milljónir króna, var skilað til eigandans í gær en því hafði verið stolið fyrr í vikunni. 

Einleikarinn og eigandi hljóðfærisins, Ophelie Gaillard, fékk nafnlaust símtal i gær þar sem henni var sagt að það væri inni í bíl fyrir utan heimili hennar. Þar lá það í aftursætinu. Ein rúða bifreiðarinnar var brotin og Gaillard tók sellóið úr bílnum. Það er að hennar sögn í góðu ástandi. 

Ráðist var á hana fyrir utan heimili hennar á fimmtudag og ógnaði árásarmaðurinn henni með hnífi og tók hljóðfærið af henni sem og farsíma hennar. Hann forðaði sér síðan á hlaupum en Gaillard býr í Pantin-hverfinu fyrir utan París.

Hún segir að ræninginn hafi verið mjög ógnandi og hún hafi ekki getað sofið í tvo daga eftir ránið. Hún segir að það sé kraftaverk að hún hafi fengið hljóðfærið í sínar hendur að nýju. Að sögn lögreglu er mjög erfitt að selja þýfi sem þetta þar sem fáir kaupendur hafi áhuga. 

Hún hafði keypt sellóið á 1,3 milljónir evra en banki hennar lánaði henni fyrir hljóðfærinu. Sellóið er smíðað í Udine á Ítalíu árið 1737 af Francesco Goffriller, syni þekkts hljóðfærasmiðs, Matteos Goffrillers.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert