Inngripin óumdeilanleg

Þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, HR McMaster, segir óumdeilanlegt að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á kosningarnar árið 2016.

McMaster sagði þetta í gær eftir að Robert Mueller, sérstakur saksóknari í rannsókn Bandaríkjanna á meintum afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum 2016, ákærði á föstudag þrettán Rússa sem grunaðir eru um að hafa rekið leynilega kosningabaráttu til að hafa áhrif á niðurstöður kosninganna.

Í ákærunni kemur fram að náinn bandamaður Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta hafi stýrt hinni leynilegu kosningabaráttu. Hún hafi upp úr miðju ári 2016 miðað að því að afla Donald Trump Bandaríkjaforseta atkvæða og grafa undan Hillary Clinton, keppinaut hans. Rússnesk stjórnvöld vísa ásökununum á bug.

Þetta kom fram í máli McMaster á öryggismálaráðstefnu í München en skömmu áður hafði utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, haldið því fram að þetta væri bara blaður og bull. 

Frétt Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert