Cox hættir vegna ásakana um áreitni

Jo Cox.
Jo Cox. AFP

Eiginmaður breska þingmannsins Jo Cox, sem var myrtur árið 2016, hefur látið af störfum fyrir tvo góðgerðarsjóði sem stofnaðir voru í minningu Cox. Ástæðan eru ásakanir á hendur honum, Brendan Cox, um kynferðislega áreitni. 

Cox hefur neitað því að hafa beitt konu á þrítugsaldri kynferðislegu ofbeldi við Harvard-háskólann árið 2015 líkt og hann hefur verið sakaður um, en hefur játað ósæmilega hegðun þegar hann starfaði hjá góðgerðarsamtökunum Save the Children.

Jo Cox var myrt í hrottalegri árás viku fyr­ir Brex­it-þjóðar­at­kvæðagreiðsluna. Thom­as Mair fékk lífstíðardóm fyr­ir morðið, án mögu­leika á reynslu­lausn.

Kviðdóm­ur við dóm­stól­inn í London sak­felldi Mair fyr­ir að hafa ít­rekað skotið og stungið Cox, tveggja barna móður og þingmann Verkamannaflokksins, þegar hún kom á bóka­safnið í Birstall í Norður-Englandi til að hitta kjós­end­ur sína á fundi. Kviðdóm­end­ur höfðu áður heyrt vitn­is­b­urð um að Mair hefði öskrað „Bret­land fremst“ (e. „Britain first“) á meðan hann skaut hana þrem­ur skot­um og stakk til viðbót­ar fimmtán sinn­um.

Brendan Cox lét af störfum fyrir More in Common og Jo Cox Foundation í gær en fyrir viku greindi Mail on Sunday frá ásökunum á hendur honum. Hann biðst afsökunar á að hafa sært fólk með hegðun sinni.

Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í gær kemur fram að ásakanir á hendur honum, sem lagðar voru fram við lögregluna í Cambridge, Massachusetts, árið 2015 vegna atviks í Harvard, séu ekki réttar en hann geri sér grein fyrir því að hafa gert mistök á þeim tíma sem hann starfaði fyrir Save the Children.

Hann segir að hluti af ásökunum á hendur honum séu mjög ýktar en hann viðurkenni að hafa gengið of langt. Upplýsingar um óviðeigandi hegðun hans, þegar hann starfaði hjá Save the Children, voru birtar eftir að Oxfam baðst afsökunar á hegðun hjálparstarfsmanna á Haítí. Cox lét af störfum hjá Save the Children árið 2015.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert