Trump hvetur þingmenn til dáða

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hvetur þingið til þess að binda endi á lokun bandaríska alríkisins en því var lokað í gær vegna þess að ekki náðist samkomulag um framlengingu á fjárlögum.

Trump fjallar um málið á Twitter í dag og þar lofar hann framgang repúblikana og baráttu þeirra fyrir herinn og öryggi landamæra Bandaríkjanna. Aftur á móti segir hann demókrata vilja að ólöglegir innflytjendur flæði inn í landið eftirlitslaust.

Reynt er að ná samkomulagi í Capitol Hill, bandaríska þinghúsinu, og hefur leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, Mitch McConnell, greint frá því að atkvæði verði greidd um frumvarpið klukkan 1 í nótt að staðartíma, klukkan 6 í fyrramálið að íslenskum tíma. Um er að ræða frumvarp til laga um að framlengja fjármögnun ríkisins til 8. febrúar. Síðast þegar bandaríska alríkið lokaði stóð lokunin yfir í 16 daga en það var árið 2013. Á morgun fer fyrst að reyna alvarlega á lokunina þegar starfsmenn alríkisins eiga að mæta til vinnu.  


Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, er á ferðalagi um Mið-Austurlönd en þar situr hann fundi með leiðtogum Egyptalands, Jórdaníu og Ísrael. Hann segir það mikil vonbrigði að demókratar skuli standa á bak við lokun alríkisins. Ábyrgðin sé þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert