Stjórnarviðræður í Þýskalandi: Hver eru næstu skref?

Angela Merkel kanslari og Martin Schulz, formaður Jafnaðarmanna.
Angela Merkel kanslari og Martin Schulz, formaður Jafnaðarmanna. AFP

Stór hindrun er úr veginum varðandi myndun nýrrar ríkisstjórnar í Þýskalandi eftir að Jafnaðarmenn samþykktu á fundi sínum í dag að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Kristilega demókrata, flokk Angelu Merkel Þýskalandskanslara. Með þessar niðurstöðu víkur frá hugmyndin um nýjar þingkosningar, en ný ríkisstjórn undir forystu Merkel er þó langt í frá tryggð.

56% fulltrúa Jafnaðarmanna á flokksfundinum greiddu atkvæði með viðræðunum, eða 362 af 642 fulltrúum. Ljóst er því að talsverð óánægja er einnig í röðum flokksmanna með áframhaldandi viðræður milli flokkanna.

Næsta skref er svo að hefja formlegar viðræður, en gangi þær vel verður gerður ríkisstjórnarsáttmáli, líkt og gert er hér á landi milli stjórnarflokka. Árið 2013 þegar Merkel samdi við Jafnaðarmenn síðast tóku viðræðurnar þrjár vikur. Hefur hún sjálf sagt að hún vilji samning á borðinu um miðjan febrúar.

Þá munu samt örlög Merkel aftur liggja í höndum Jafnaðarmanna, en leiðtogi þeirra, Martin Schulz, gaf loforð um að 440 þúsund félagar í flokknum myndu hafa lokaorð um það hvort farið yrði í ríkisstjórnarsamstarf með Kristilegum demókrötum.

Umstangið í kringum slíkar kosningar, kynningar, atkvæðagreiðsla og talning gæti tekið samtals aðrar þrjár vikur. Gangi allt að óskum er því ólíklegt að ný ríkisstjórn verði mynduð fyrr en um á fyrri hluta marsmánaðar. Myndi Merkel þá leiða ríkisstjórn Þýskalands í fjórða skiptið, eftir að hafa verið kanslari í 12 ár nú þegar.

Í samantekt AFP kemur fram að framundan gæti orðið eitt erfiðasta verkefni Merkel, að ná að halda slíkri ríkisstjórn saman miðað við djúpan stjórnmálaágreining flokkanna. Stjórnmálaskýrendur í Evrópu telja þá líklegt að Merkel muni segja af sér nokkuð áður en kjörtímabilið rennur út og leyfa væntanlegum arftaka að taka við kanslaraembættinu nokkru áður en kosið verður á ný árið 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert