Almennir borgarar drepnir á hverjum degi

Barn sem lést í einni af árásunum í vikunni.
Barn sem lést í einni af árásunum í vikunni. AFP

Sýrlenski stjórnarherinn drap sextán almenna borgara í stórskotaárás í Austur-Ghouta í dag. Svæðið hefur verið í herkví stjórnvalda frá árinu 2013 og er talið að íbúar héraðsins, um 400 þúsund talsins, búi við skelfilegar aðstæður þar sem skortur er á lyfjum og mat. Varað er við myndum sem fylgja fréttinni.

Frá Douma í dag.
Frá Douma í dag. AFP

Í dag gerði herinn árás á markað í bænum Douma og létust níu á markaðnum. Sex létust í bæjunum Hammuriyeh, Arbeen og al-Marj. Barn lést í loftárás hersins á bæinn Zamalka. 

Sameinuðu þjóðirnar segja að um 500 íbúar séu í bráðri lífshættu í Austur-Ghouta og lífsnauðsynlegt sé að flytja þá á brott svo þeir fái þá læknisþjónustu sem þeir þurfa á að halda til að lifa af.

Í desember fengu 29 sjúklingar, aðallega börn, að fá læknisaðstoð utan héraðsins eftir að samkomulag náðist um það milli hersins og uppreisnarmanna. Hermt var að uppreisnarmennirnir hefðu samþykkt að sleppa 26 mönnum, þeirra á meðal ríkisstarfsmönnum sem voru handteknir í átökum í mars, gegn því að 29 sjúklingum yrði sleppt. JanEgeland, sérlegur sendimaður hjálparstofnana Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi, gagnrýndi samkomulagið og sagt er að sjúk börn eigi ekki að vera „skiptimynt“ í samningaviðræðum milli uppreisnarmanna og stjórnar Sýrlands því að þau eigi rétt á því að vera flutt af átakasvæðinu.

Hvítu hjálmarnir að störfum í Austur-Ghouta.
Hvítu hjálmarnir að störfum í Austur-Ghouta. AFP

Austur-Ghouta er eitt af fjórum svæðum sem samþykkt var að draga úr átökum á í samkomulagi sem undirritað var af uppreisnarmönnum sem njóta stuðnings Tyrkja og bandamanna stjórnvalda, Írana og Rússa.

En lítið hefur dregið úr átökum þar sem stjórnarherinn hefur nánast látlaust gert loftárásir á svæðið sem er skammt frá Damaskus.  

Samkvæmt upplýsingum frá Hvítu hjálmunum hafa um 200 manns, þar af tugir barna, látist í loftárásum stjórnarhersins á Austur-Ghouta undanfarnar þrjár vikur.

Uppreisnarhóparnir Faylaq al-Rahman og Jaysh al-Islam ráða ríkjum í Austur-Ghouta. Árið 2013 gerði stjórnarherinn eiturvopnaárás á svæðið og létust yfir 1.400 íbúar í árásinni.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert