Lögregla gerir húsleit hjá Lactalis

Rannsakendur koma hér að höfuðstöðvum Lactalis í Laval.
Rannsakendur koma hér að höfuðstöðvum Lactalis í Laval. AFP

Franska lögreglan framkvæmdi í dag húsleit í nokkrum verksmiðjum franska mjólkurvöruframleiðandans Lactalis, í tengslum við rannsókn á því að salmonella greindist í þurrmjólk frá fyrirtækinu.

Þegar er búið að innkalla rúmlega 12 milljón öskjur af þurrmjólk fyrir ungbörn, sem farið hafði á markað í 83 löndum. Þá hafa foreldrar nokkurra þeirra barna sem veiktust eftir að hafa drukkið þurrmjólkina höfðað mál gegn fyrirtækinu.

BBC segir einn þeirra staða þar sem húsleitin er framkvæmd vera pökkunarverksmiðju Lactalis í Craon í norðvesturhluta Frakklands, þar sem upphaflega var talið að salmonellusmitið hefði átt sér stað einum þurrkunarturnanna. Var verksmiðjunni lokað í síðasta mánuði eftir að upplýst var um salmonellusýkinguna.

Michel Nalet, talsmaður Lactalis, hefur staðfest við AFP-fréttastofuna að lögregla sé á staðnum. „Líkt og við höfum áður sagt þá veitir Lactalis dómsmálayfirvöldum fullt samstarf og veitir allar nauðsynlegar upplýsingar til að rannsóknin gangi vel fyrir sig.“

Að minnsta kosti 37 börn hafa smitast af salmonellu í Frakklandi vegna þurrmjólkurinnar.

Lactal­is er einn stærsti mjólk­ur­vöru­fram­leiðandi í heim­in­um og greint var frá því á dög­un­um að fyr­ir­tækið hefði keypt Siggi‘s skyr, sem Íslend­ing­ur­inn Sig­urður Hilm­ars­son stofnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert