Svíi tekinn af lífi í Írak

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Amnesty International

Sænska utanríkisráðuneytið hefur harðlega gagnrýnt ákvörðun íraskra yfirvalda að taka mann með sænskan ríkisborgararétt af lífi við sendiherra Íraks í Svíþjóð. Maðurinn, sem var á sextugsaldri, var tekinn af lífi fangelsi í Suður-Írak í gær ásamt 37 öðrum föngum. Allir fangarnir voru hengdir fyrir að vera grunaðir um aðild að hryðjuverkastarfsemi.

Utanríkisráðuneytið hefur formlega mótmælt dauðadómnum og forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven, hefur persónulega rætt við starfsbróður sinn í Írak um málið.

Maðurinn var dæmdur til dauða árið 2010 fyrir hryðjuverk af íröskum dómstól. Dómsmálaráðherra Íraks, Haidar al-Zamali, var viðstaddur aftökurnar í fangelsi borgarinnar al-Nasiriyya í gærmorgun.

„Ég hef ekki fengið nákvæmar upplýsingar um málið en við vissum að þessi maður væri í fangelsi í Írak sakaður um hryðjuverk,“ segir Löfven í viðtali við TT fréttastofuna.

„Afstaða okkar er sú að ef þú ferðast til annarra landa og fremur glæpi þá getur þú átt von á refsingu í viðkomandi landi. Við höfum aftur á móti áður lýst yfir andstöðu okkar við dauðarefsingum," segir Löfven ennfremur.

Utanríkisráðuneytið veit um fleiri sænska ríkisborgara sem eru í fangelsum í Írak en ekki hvort einhver þeirra hefur verið dæmdur til dauða. Yfirvöld í Írak segja að upplýsingar hafi legið fyrir um tengsl mannsins við Ríki íslams og al-Qaeda. 

Frétt SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert