Fields nú sakaður um morð að yfirlögðu ráði

James Alex Fields ók bíl á mannfjöldann í Charlottesville. Ein …
James Alex Fields ók bíl á mannfjöldann í Charlottesville. Ein kona lést. Fields hefur verið ákærður fyrir morð. AFP

Karlmaður sem sakaður er um drepa konu í Virginíu í ágúst á lífstíðarfangelsisdóm yfir höfði sér eftir að ákæru á hendur honum var breytt. Hann er nú sakaður um að hafa myrt konuna sem hann ók á við samkomu hvítra rasista í borginni Charlottesville.

James Alex Fields Jr. mætti fyrir dómara í dag vegna hinnar nýju ákæru. Fields ók bíl sínum inn í mannfjölda sem var að mótmæla samkomu rasistanna í borginni með þeim afleiðingum að Heather Heyer lést og 35 særðust. 

Atvikið átti sér stað í kjölfar mótmæla sem orðið höfðu í borginni vegna þess að stytta af hershöfðingja Suðurríkjahers hafði verið fjarlægð úr almenningsgarði.

Fields er sagður hafa stutt málstað rasista og var mættur til að styðja málstað hinna hvítu öfgamanna sem boðuðu til samkomunnar í borginni.

Málflutningur í morðmálinu hefst á mánudag. 

Ef Fields verður fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér allt frá 20 ára fangelsisdómi til lífstíðarfangelsis.

Í frétt BBC um málið segir að miðað við ákæruna sé hann grunaður um morð að yfirlögðu ráði. 

Sýndu tvö ný myndskeið

Foreldrar Heyer voru viðstaddir fyrirtöku málsins í dag. Mörgum brá við er saksóknarinn sýndi tvö myndskeið af árásinni sem ekki hafa verið sýnd áður. Einn maður úr hópi þeirra sem særðust úr árásinni yfirgaf réttarsalinn í kjölfarið. Fields sýndi hins vegar engin viðbrögð, að því er fram kemur í frétt BBC.

Hinn 12. ágúst fylktust hvítir rasistar til Charlottesville til að mótmæla því að stytta af Robert E. Lee hershöfðingja væri fjarlægð. Lee var stuðningsmaður þrælahaldsins og leiddi heri Suðurríkjanna í borgarastríðinu. 

Fulltrúar samtaka á borð við Ku Klux Klan og nýnasista voru meðal þeirra sem mættu til samkomunnar. Annar hópur, sem mótmælti rasistunum, mætti einnig og endaði dagurinn með ofbeldisfullum átökum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert