Viðræðum slitið í Þýskalandi

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

Stjórnarmyndunarviðræður runnu út í sandinn í Þýskalandi í gær eftir að tillögu Frjálsra demókrata (FDP) um frjálsan markað var hafnað. 

Leiðtogi FDP, Christian Lindner, segir að ekki sé traust ríkjandi í viðræðum um myndun ríkisstjórnar með bandalagi Angelu Merkel kanslara, CDU/CSU og Græningjum. Ekki er vitað hvað gerist næst en Merkel mun fara á fund forseta Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, og fara yfir stöðu mála. Hann getur krafist þess að kosið verði að nýju. Þrátt fyrir að CDU/CSU hafi fengið flest atkvæði í kosningunum í september kusu margir aðra flokka en þá hefðbundnu. 

CDU, Kristilegir demókratar, fengu um 33% atkvæða í kosningunum í september og hafa ekki hlotið minna fylgi síðan 1949.

Þjóðernisflokkurinn Nýr valkostur fyrir Þýskaland, AfD, fékk aftur á móti meira fylgi en spáð hafði verið en meðal baráttumála flokksins er að fækka útlendingum í Þýskalandi.

Í frétt BBC kemur fram að Merkel segist harma niðurstöðu viðræðna flokkanna þriggja og að hún muni hitta forseta landsins að máli síðar í dag og greina honum formlega frá niðurstöðunni. Hún muni sem kanslari gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að tryggja stöðu landsins næstu vikur.

Frétt BBC

CDU/CSU eru með 246 af 709, SPD (jafnaðarmenn) eru með 153, vinstrimenn eru með 69, Græningjar 67, FDP eru með 80 þingmenn og AfD er með 94.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert