Verður kosið aftur í Þýskalandi?

Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP

Fastlega er búist við því að boðað verði til nýrra þingkosninga í Þýskalandi í kjölfar þess að viðræður Kristilegra demókrata, Frjálslyndra og Græningja runnu út í sandinn. Kosið var síðast í lok september og hefur síðan verið reynt að mynda ríkisstjórn.

Fram kemur í þýskum fjölmiðlum að Angela Merkel, kanslari Þýskalands og leiðtogi Kristlegra demókrata, standi líklega frammi fyrir mestu áskorun sinni á stjórnmálasviðinu í kjölfar viðræðuslitanna. Eini möguleikinn á að mynda ríkisstjórn, annar en sá sem rann út í sandinn, væri stjórnarsamstarf Kristlegra demókrata og Jafnaðarmannaflokksins.

Frétt mbl.is: Viðræðum slitið í Þýskalandi

Síðasta ríkisstjórn var mynduð af þessum tveimur flokkum, auk systurflokks Kristlegra demómkrata CSU í Bæjaralandi, en vegna fylgistaps í kosningunum lýstu Jafnaðarmenn því yfir að þeir væru ekki á leið í ríkisstjórn myndu verða í stjórnarandstöðu.

Jafnaðarmenn hafa ekki breytt þessari afstöðu sinni en leiðtogi þeirra, Martin Schulz, hafnaði því í dag að mynda samsteypustjórn undir forystu Merkels. Sagði hann að flokkur hans óttaðist það ekki ef til þess kæmi að boðað yrði til nýrra þingkosninga.

Engin hefð fyrir minnihlutastjórnum

Minnihlutastjórn þykir ekki koma til greina enda engin hefð fyrir slíkum ríkisstjórnum í Þýskalandi segir í frétt Deutsche Welle. Ekki eykur líkurnar á slíkri stjórn að Jafnaðarmenn hafa hafnað því að styðja minnihlutastjórn undir forystu Merkels.

Forseti Þýskalands, Frank-Walther Steinmeier, hefur skorað á leiðtoga stjórnmálaflokkanna að reyna áfram að mynda ríkisstjórn samkvæmt frétt breska blaðsins Guardian sem segir stöðuna sem upp er komin versti pólitísku krísu landsins í áratugi.

Frétt mbl.is: Evran lækkar í kjölfar viðræðuslita

Þrátt fyrir að líklegast þyki á þessum tímapunkti að boðað verði til nýrra kosninga er ekki talið algerlega útilokað að það takist að mynda ríkisstjórn. Hins vegar sé nokkuð ljóst að ýmsar forsendur þurfi að breytast áður en af því geti orðið.

Talið er að það gæti komið sér afar illa fyrir Merkel ef boða verði til nýrra þingkosninga og jafnvel að brátt fari að sjá fyrir endann á stjórnmálaferli hennar. Merkel hefur verið kanslari Þýskalands síðan 2005 og leiðtogi Kristlegra demókrata frá árinu 2000.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert