11 ára drengur fyrirfór sér

AFP

Austurríska lögreglan rannsakar nú sjálfsvíg ellefu ára gamals drengs á flótta frá Afganistan.

Drengurinn lést á sjúkrahúsi skammt frá Vín í síðustu viku, daginn eftir að hafa verið lagður inn eftir sjálfsvígstilraun. Drengurinn hafði búið ásamt fjölskyldu sinni í flóttamannamiðstöð í Baden, suður af höfuðborginni, frá því í fyrra. Samkvæmt fréttum austurrískra fjölmiðla var gríðarlegt álag á drenginn, en hann þurfti að gæta sex systkina sinna eftir að 23 ára gamall bróðir hans skildi hann eftir einan með yngri systkini.

Samkvæmt frétt austurríska ríkissjónvarpsins, Oe1, var yfirvöldum gerð grein fyrir aðstæðum fjölskyldunnar en ekkert var gert til þess að styðja hana. Yfirvöld neita þessum ásökunum og segja að málið hafi verið rannsakað og ekkert óeðlilegt hafi komið í ljós.

Í dag  er alþjóðlegur dagur barna haldinn hátíðlegur um allan heim. Dagurinn er einnig afmælisdagur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, gleðst yfir þeim mikla árangri sem náðst hefur við að bæta stöðu barna um allan heim, en minnir um leið á að þrátt fyrir miklar framfarir eru réttindi barna víða brotin. Til að mynda býr nú mikill fjöldi barna (eitt af hverjum 12) við meiri óvissu um framtíð sína, heldur en ríkti um framtíð foreldra þeirra þegar þau voru börn.  

UNICEF hafa fordæmt aðgerðarleysi stjórnvalda í ríkjum ESB í garð barna á flótta. Mannréttindavaktin varaði við því í júlí að með því að hægja á komu flóttafólks frá Grikklandi til annarra ríkja ESB þá hafi sjálfsvígum og sjálfssköðum fjölgað verulega á meðal flóttafólks. 
Hælisleitendur sem eru í flóttamannabúðum á eyjum í Eyjahafi lýsa skelfilegum aðstæðum þar sem fólk hefur kveikt í sér, hengt sig eða skorið sig á púls í örvæntingu vegna þeirra aðstæðna sem Evrópa býður fólki upp á. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert