Ríkasta prósentið á helming auðæfanna

Útibú Credit Suisse í Basel.
Útibú Credit Suisse í Basel. AFP

Ríkasta eitt prósent jarðarbúa á helming allra auðæfanna í veröldinni, samkvæmt nýrri skýrslu þar sem bent er á bilið sem hefur aukist á milli hinna ofurríku og allra hinna.

Auðæfi ríkasta fólks heimsins hafa aukist úr 42,5% frá því fjármálakreppan var í hámarki í heiminum árið 2008 yfir í 50,1% á þessu ári.

Þetta kemur fram í skýrslu bankans Credit Suisse um skiptingu auðæfa í heiminum sem kom út í dag, samkvæmt The Guardian

„Hlutur efsta eins prósentsins hefur verið á uppleið síðan í kreppunni og árið 2013 fór hún fram úr árinu 2000. Á hverju ári síðan þá hefur hann aukist,” sagði í skýrslunni.

Þar kom fram að „ójöfnuður vegna skiptinga auðæfa heimsins hafi verið mikill og hafi aukist eftir kreppuna”.

Milljónamæringarnir orðnir 36 milljónir 

Undanfarið ár hafa orðið til 2,3 milljónir nýrra milljónamæringa í dollurum talið. Alls eru þeir orðnir 36 milljónir í heiminum.

„Fjöldi milljónamæringa, sem dróst saman árið 2008, jókst fljótt eftir fjármálakreppuna og er núna næstum þrisvar sinnum meiri en árið 2000.”

Þessir milljónamæringar, sem eru um 0,7% fullorðinna í heiminum, ráða yfir 46% af auðæfum heimsins sem nema 280 trilljónum dollara.

Á hinum enda kúrfunnar þá eiga 3,5 milljarðar fátækustu fullorðinna í heiminum eignir sem eru metnar á innan við 10 þúsund dollara, eða rúma eina milljón króna.

Samanlagt á þetta fólk, sem samanstendur af 70% allra í heiminum sem eru ekki komnir á eftirlaun, aðeins um 2,7% af auðæfum heimsins.

Flestir hinna fátækustu búa í þróunarlöndunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert