„Snarvalar-morðinginn" tekinn af lífi

Anthony Shore verður tekinn af lífi í dag.
Anthony Shore verður tekinn af lífi í dag. AFP

Raðmorðinginn Anthony Shore verður tekinn af lífi í Texas í dag en hann játaði að hafa nauðgað, pyntað og myrt þrjár stúlkur og unga konu á 9. og 10. áratug síðustu aldar.

Yngsta fórnarlamb Shore var 9 ára og það elsta 20 ára en morðin voru framin á árunum 1986 til 1995 í Houston. Shore játaði að hafa lokkað stúlkurnar upp í bifreið sína, þar sem hann nauðgaði þeim og pyntaði, og myrti í kjölfarið.

Líkin skildi hann eftir á opinberum stöðum.

Fimmta fórnarlamb Shore var 14 ára þegar hann réðist á hana á heimili hennar. Henni tókst að flýja.

Shore, sem er 55 ára í dag, var þekktur undir viðurnefninu „Snarvalar-morðinginn" (e. Tourniquet Killer), þar sem hann kyrkti fórnarlömb sín með heimatilbúnum búnaði sem samanstóð af reipi og einhverju til að þrengja að.

Í einu tilviki notaði hann tannbursta til verksins og í öðru bambusprik.

Shore náðist árið 2003 eftir að lögregla fann samsvörun milli erfðaefnis sem fannst á líkamsleifum hinnar tvítugu Maria Del Carmen Estrada og sýnis sem tekið var eftir að Shore var dæmdur fyrir að misnota dætur sínar kynferðislega.

Shore játaði, sem fyrr segir, og fór fram á dauðarefsinguna.

Lögmenn morðingjans hafa ítrekað reynt að fá dóminn mildaðan á grundvelli heilaskaða sem þeir segja Shore hafa orðið fyrir í bílslysi á 9. áratugnum. Umleitunum þeirra hefur ávallt verið hafnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert