Felst lausnin í að kjósa aftur?

Tugir þúsunda sjálfstæðissinna í Katalóníu tóku þátt í kertavöku í …
Tugir þúsunda sjálfstæðissinna í Katalóníu tóku þátt í kertavöku í gærkvöldi þar sem hvatt var til þess að tveir áhrifamenn úr röðum stjórnarandstæðinga yrðu látnir lausir. AFP

Svo virðist sem stjórnvöld á Spáni hafi boðið aðskilnaðarsinnum í Katalóníu mögulega lausn á pattstöðunni sem komin er upp milli spænskra yfirvalda og katalónskra. Segir AFP-fréttastofan að stungið hafi verið upp á að með því að endurtaka kosningarnar væri hægt að leysa verstu pólitísku krísu sem Spánn hefur staðið frammi fyrir í áratugi.

Rík­is­stjórn Spán­ar hef­ur veitt leiðtoga Katalón­íu, Car­les Puig­demont, frest til klukk­an 10 í fyrramálið til þess að gefa það ber­lega til kynna hvort héraðið muni lýsa yfir sjálf­stæði. Puig­demont hef­ur hins veg­ar lagt til að næstu tveir mánuðir verði notaðir til viðræðna.

Hefur AFP eftir heimildamanni innan stjórnarinnar að með því að kjósa aftur væri hægt að snúa frá lögleysunni, en hvorki stjórnvöld né dómstólar á Spáni hafa viðurkennt lögmæti sjálfstæðiskosninganna.

„Frelsi“ stendur á spjöldunum, en fólk hefur krafist þess að …
„Frelsi“ stendur á spjöldunum, en fólk hefur krafist þess að tveir áhrifamenn úr röðum stjórnarandstæðinga Katalóníu yrðu leystir úr haldi. AFP

Óttast að miðstýring auki spennuna

Stjórnvöld í Madrid hafa varað Puig­demont við að dragi hann sjálfstæðisyfirlýsinguna ekki til baka muni spænska ríkið hefja ferli til að draga úr þeirri sjálfsstjórn sem héraðið hefur.

Það eru skiptar skoðanir meðal Katalóníubúa hvort þeir vilji að héraðið kljúfi sig frá Spáni, en þeir eru engu að síður stoltir af þeirri sjálfsstjórn sem héraðið hefur nú þegar. Verði gripið til aukinnar miðstýringar vekur það ótta um að spenna aukist enn frekar, en þegar hefur komið til mótmæla og átaka á götum, um 800 fyrirtæki hafa hafið undirbúning að því að flytja höfuðstöðvar sínar frá Barcelona og nágrannar Spánar í Evrópusambandinu hafa áhyggjur af stöðu mála.

Algjör óvissa hefur ríkt á Spáni frá því að spænsk yfirvöld bönnuðu sjálfstæðiskosningu Katalóníu 1. október sl. og í kjölfar harkalegra lögregluaðgerða sem var gripið til í kjölfarið til að hindra kosningarnar.

Carles Puigdemont, leiðtogi Katalóníu, hefur frest til 10 í fyrramálið …
Carles Puigdemont, leiðtogi Katalóníu, hefur frest til 10 í fyrramálið til að ákveða hvort hann dragi sjálfstæðisyfirlýsinguna til baka. AFP

Rajoy biðlar til Puigdemonts að sýna skynsemi

„Ég biðla til Puig­demonts að hann sýni skynsemi,“ sagði Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, í þinginu í dag. Puig­demont gaf út óljósa sjálfstæðisyfirlýsingu sem fól í sér frestun í kjölfar kosninganna og hefur spænska stjórnin í kjölfarið hótað því að virkja 155. grein stjórnarskrár Spánar sem myndi afnema sjálfsstjórn Katalóníu.

AFP segir hins vegar vísbendingar hafa verið um það í dag að ýmsir telji nýjar kosningar vera leið til að afnema þessa pattstöðu. Þær kosningar myndu þá njóta blessunar stjórnvalda í Madrid ólíkt síðustu kosningum og myndu gefa Katalóníubúum færi á að tjá sig um málið.

„Eina mögulega leiðin fram á við fyrir Puig­demont er að koma lögum aftur á og frá pólitísku sjónarmiði að færa kosningarnar fram á við,“ sagði Pedro Sanchez, formaður stjórnarandstöðu Spánar, sem vinnur nú með stjórninni að málefnum Katalóníu.

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, biðlaði til Puidgemont að „sýna skynsemi“.
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, biðlaði til Puidgemont að „sýna skynsemi“. AFP

Reið út í báðar stjórnir

Heimildamaður innan katalónsku stjórnarinnar sagði kosningar „ekki vera forgangsatriði“ en útilokaði þær ekki.

„Við munum ekki bregðast við óopinberum yfirlýsingum frá stjórninni,“ sagði hann. „Við bíðum og sjáum hvað Madrid ákveður á morgun.“

Á götum Barcelona eru Katalóníubúar að verða sífellt ósáttari við pattstöðuna. „Stjórnmálamenn fá greitt fyrir að miðla málum,“ sagði Laura Penan, sem lýsir sér sem „reiðri út í báðar stjórnir“.

Spenna hefur einnig aukist eftir að tveir áhrifamenn úr röðum stjórnarandstæðinga voru handteknir. Jordi Sanchez, for­seti þings­ins í Katalón­íu, og Jordi Cuix­art, leiðtogi sjálf­stæðis­sam­tak­anna Omni­um Kultural, voru hand­tekn­ir á mánu­dag og úr­sk­urðaðir í gæslu­v­arðhald án mögu­leik­ans á að vera látn­ir laus­ir gegn greiðslu trygg­inga­gjalds. Þeir eru sakaðir um að hafa hvatt mót­mæl­end­ur til dáða þegar spænska lög­regl­an reyndi að hindra kosningarnar.

Tugir þúsunda mættu á kertavöku sem haldin var í Barcelona í gærkvöldi þar sem þess var krafist að þeir yrðu látnir lausir.

Puigdemont segir 90% hafa kosið með aðskilnaði frá Spáni, en kosningaþátttaka var aðeins 43% þar sem margir andstæðingar sjálfstæðiskröfunnar sátu heima.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert