Líkir Trump við gjammandi hund

Trump sagðist í ræðu sinni tilbúinn að gereyða Norður-Kóreu.
Trump sagðist í ræðu sinni tilbúinn að gereyða Norður-Kóreu. AFP

Utanríkisráðherra Norður-Kóreu segir ræðu Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, sem hann flutti á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í vikunni, aðeins hafa verið hundsgjamm. BBC greinir frá.

Trump sagði í ræðu sinni að Bandaríkin væru tilbúin að „gereyða“ Norður-Kóreu ef til þess kæmi að Bandaríkin þyrftu að verja sig eða bandamenn sína. En stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa haldið áfram að þróa kjarnorkuáætlun sína, og ögrað með eldflaugaskotum, þrátt fyrir hertar refsiaðgerðir sem samþykktar voru í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þá kallaði Trump Kim Jong-un eldflaugamanninn, eða Rocket Man.

Ri Yong-ho, utanríkisráðherra Norður-Kóreu, ræddi við blaðamenn fyrir utan höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna, eftir ræðu Trump. Hann sagði væri til orðatiltæki sem ætti við í hans tilfelli: „Jafnvel þó að hundurinn gelti, þá heldur skrúðgangan áfram.“

„Ef Trump ætlaði að koma okkur á óvart með gelti sínu þá lifir hann klárlega í draumaheimi,“ sagði Ri jafnframt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert