Kallaði ráðherra „loftslags-barbí“

Catherine McKenna, umhverfisráðherra Kanada.
Catherine McKenna, umhverfisráðherra Kanada. AFP

Þingmaður Íhaldsflokksins í Kanada hefur beðist afsökunar á því að hafa kallað umhverfisráðherra landsins, Catherine McKenna, „loftslags-barbí“ (e. climate Barbie).

Gerry Ritz tjáði sig á Twitter í umræðu um Parísarsáttmálann þar sem meðal annars kom fram að helstu iðnaðarríki heims ná ekki að uppfylla skilyrði sáttmálans.

„Hefur einhver sagt „loftslags-barbídúkkunni“ okkar frá þessu?“ spurði Ritz á Twitter.  

Tístið vakti hörð viðbrögð, sérstaklega frá samflokksmönnum ráðherrans í Frjálslynda flokknum.

Tístið var fjarlægt stuttu síðar og hefur Ritz beðist afsökunar á ummælum sínum sem „endurspegluðu ekki það hlutverk sem ráðherrann gegnir.“

McKenna spurði þingmanninn á móti: „Myndir þú tala við dóttur þína, móður þína eða systur með þessari kvenfyrirlitningu?“

Í frétt BBC kemur fram að forseti þingsins hafi blandað sér í málið og segir að ekki sé pláss fyrir fáfræði af þessu tagi í kanadískum stjórnmálum.

Ritz hefur starfað í stjórnmálum í tvo áratugi og tilkynnti nýlega að hann hyggst hætta afskiptum af stjórnmálum þegar kjörtímabilinu lýkur.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert