Hafa ekki tíma til að lesa fyrir börnin

Fjórðungur barna í þróunarríkjunum fer á mis við kósýstundir með …
Fjórðungur barna í þróunarríkjunum fer á mis við kósýstundir með foreldrum sínum, þar sem lestur, söngur og leikur er í fyrirrúmi. Ljósmynd/UNICEF

Fjórðungur barna í þróunarríkjunum fer á mis við að lesa, syngja og leika með foreldrum sínum. Samkvæmt UNICEF hefur það áhrif á vitsmunaþroska milljóna barna undir fimm ára aldri að foreldrar þeirra fá hvorki upplýsingar né stuðning, t.d. barnseignarorlof.

Dr. Pia Britto, yfirmaður hjá UNICEF, segir skort á tíma og fjármunum leiða til þess að margir foreldrar eru tilneyddir til að verja tíma sínum í að fæða og klæða börn sín, frekar en að leika við þau. Þetta eigi ekki síst við á átakasvæðum og þar sem mikið er um fátækt og sjúkdóma.

Í könnun sem náði til 64 þróunarríkja voru foreldrar spurðir að því hvort þeir verðu einhverjum tíma í að segja börnum sínum sögur, lesa fyrir þau, nefna, telja, teikna, leika eða syngja með þeim.

Fjórðungur barna hafði aldrei notið þess að gera þessa hluti með foreldrum sínum, sem sérfræðingar telja mikilvægan þátt í vitsmuna-, tilfinninga- og félagsþróun þeirra.

„Við erum ekki að hlúa að huga barna eins og við hugum að líkama þeirra, sérstaklega snemma í barnæsku, sem vísindin benda til að sé sá tími þegar heilar þeirra og framtíð séu í hraðri þróun,“ segir Britto.

Rannsakendur á vegum UNICEf komust einnig að því að meira en 20% barna undir fimm ára eru skilin eftir ein, án eftirlits fullorðinna, samkvæmt gögnum frá 70 ríkjum. Þá eru 80% beitt ofbeldisfullum aga af forráðamönnum.

Í skýrslu UNICEF er bent á þrennt sem þarf að vera til staðar til að styðja fjölskyldur með ung börn: Tveggja ára ókeypis forskólanám, launaðar brjóstagjafapásur fyrstu sex mánuðina og barnseignarorlof.

Eitt af hverjum átta börnum undir fimm ára aldri býr í einu af 32 ríkjum þar sem ekkert af þessu stendur fjölskyldum til boða.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert