Blaðamaður barinn til bana

AFP

Indverskur blaðamaður, sem hefur fjallað pólitískan óstöðugleika í norðausturhluta Indlands, var barinn til dauða í átökum sem brutust út á milli stríðandi pólitískra fylkinga og lögreglu í landinu á miðvikudag. Aðeins eru liðnar tvær vikur frá því annar þekktur blaðamaður, Gauri Lankesh, var myrtur á Indlandi.

Blaðamaðurinn, Shantanu Bhowmick, virðist hafa verið barinn með spýtum meðan á átökunum stóð, fyrir utan Agartala, höfuðborg Tripura-ríkis. AFP-fréttastofan hefur það eftir lögregluyfirvöldum í ríkinu að á annan tug lögreglumanna hafi einnig slasast í átökunum. Lík blaðamannsins fannst á vettvangi þegar draga fór úr átökunum.

Enginn hefur enn verið handtekinn í tengslum við dauða Bhowmick, en fjórir einstaklingar hafa verið ákærðir fyrir ofbeldi í garð lögreglu.

Með dauða Bhowmick er fjöldi blaðamanna sem hafa verið drepnir frá því á tíunda áratugnum kominn upp í 29, en árið 2015 var Indland talið hættulegasta landið í Asíu fyrir blaðamenn, samkvæmt lista Reporters Without Borders.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert