Hugðust drepa „Jóakim Aðalönd“

Hinn brosmildi Metkel Betew þótti skera sig úr varðandi persónutöfra …
Hinn brosmildi Metkel Betew þótti skera sig úr varðandi persónutöfra þegar réttarhöldin yfir ellefumenningunum sem frömdu NOKAS-ránið 2004 stóðu yfir. Hann er nú enn mættur í dómsalinn. Ljósmynd/Norska lögreglan

Eritreumaðurinn Metkel Betew hlaut 16 ára dóm fyrir þátt sinn í NOKAS-ráninu í Stavanger vorið 2004 og var ekki fyrr kominn út á reynslulausn eftir tíu ára afplánun árið 2014 en norska lögreglan var komin á snoðir um fíkniefnahring sem hann stjórnaði. Fyrir Héraðsdómi Óslóar í morgun þurfti Betew auk þess að svara fyrir áætlanir um að ræna verðmætaflutningaflugvél á Gardermoen-flugvelli og að ætla sér að ráða sjálfan Jóakim Aðalönd af dögum.

Jóakim þessi, eða Onkel Skrue eins og hann kallast á norsku, er í raun hinn pakistanski Imran Saber sem hefur verið allatkvæðamikill í undirheimum Óslóar og er einna kunnastur fyrir að hafa verið fjárreiðustjóri David Toska, höfuðpaursins í NOKAS-ráninu, stærsta bankaráni sem framið hefur verið á Norðurlöndunum, en einnig tók Saber þátt í að ræna málverkinu Ópinu eftir Edvard Munch í „Munch-ráninu“ 22. ágúst 2004.

Betew, sem setið hefur meira en hálfa ævi sína í fangelsi, kom fyrir dóm í morgun ásamt Lars Harnes, fyrrverandi leiðtoga vélhjólasamtakanna Bandidos í Ósló, og ellefu öðrum til að svara fyrir sakarefni sem sprottin eru af þriggja ára rannsóknarvinnu norskrar og danskrar lögreglu í því sem Olav Rønneberg, glæpafréttaritari ríkisútvarpsins NRK, kallar „sögulegt dómsmál“.

Fjallað var um það á fréttavef mbl í fyrrasumar þegar danskir lögreglumenn tóku þátt í að smygla 50 kílóum af hassi til Noregs auk þess að hlera heilan bar í Ósló er þeir laumuðu sér inn í raðir gengis Betews í tálbeituaðgerð sem miðaði að því að fletta ofan af fíkniefnasmygli hans og komast á snoðir um áætlanir hans og Bandidos-foringjans fyrrverandi.

Eftir að lögreglan hafði „notað allan verkfærakassann“, þar á meðal síma- og híbýlahleranir og lögreglumenn í dulargervi, tók ýmislegt að koma fram í dagsljósið sem hópur Betews hafði á prjónunum og var rúsínan í pylsuendanum þar þaulhugsuð áætlun um að ræna verðmætaflutningaflugvél á Gardermoen-flugvelli auk þess sem talið var að Betew hefði í hyggju að ráða sinn fyrrverandi samstarfsmann, Imran Saber, af dögum.

Skotinn sjö sinnum

Aðalöndin svokallaða er þó ekki bráðfeig en í nóvember 2010 var Saber skotinn sjö sinnum í brjóst og læri, þar sem hann sat undir stýri bifreiðar sinnar í Ósló, og lifði það af.

Betew og Harnes þverneituðu í morgun að hafa haft nokkrar áætlanir á prjónunum um að myrða nokkurn en Harnes átti þó erfitt með að útskýra hvernig á því stóð að lögregla handtók hann í regngalla með lokaðan vélhjólahjálm og skotvopn fyrir utan heimili Saber og auk þess á stolinni vespu.

Gert er ráð fyrir að réttarhöldin yfir þrettánmenningunum standi fram að jólum og verði Betew fundinn sekur, þó ekki nema bara um fíkniefnainnflutninginn, má búast við að hann horfi gegnum rimla í töluverðan tíma, enda enn á reynslulausn eftir NOKAS-ránið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert