20 ára för Cassini lokið

Cassini og Huygens á skotpallinum 1997.
Cassini og Huygens á skotpallinum 1997. Ljósmynd/NASA

Geimfarið Cassini, sem verið hefur á sporbraut um Satúrnus í 13 ár, hefur mætt örlögum sínum. Í hádeginu datt tengingin við farið út í fyrsta og hinsta sinn en 20 ár eru liðin frá því að því var skotið á loft ásamt könnunarfarinu Huygens.

„Þetta hefur verið ótrúleg ferð, ótrúlegt geimfar og þið eruð ótrúlegt teymi,“ sagði Earl Maize, yfirmaður Cassini-verkefnisins, í stjórnstöð bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA. „Ég lýsi förinni hér með lokið.“

Cassini var látið sundrast og verða að engu í gufuhvolfi Satúrnusar til að koma í veg fyrir að það brotlenti elsneytislaust á tunglum á borð við Títan eða Enceladus, þar sem líf kann að vera að finna. Vísindamenn töldu mögulegt að á geimfarinu væri að finna harðgerar bakteríur frá jörðinni og vildu útiloka mögulega fótfestu þeirra og útbreiðslu á tunglunum.

Óvíst er hvenær maðurinn kemst aftur í návígi við Satúrnus, hringa plánetunnar og tungl, en eftir stendur ómetanleg vísindaleg vitneskja og geimfarið Huygens, sem hvílir líklega enn rafmagnslaust á Títan.

Satúrnus.
Satúrnus. Ljósmynd/NASA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert