Bretar vanrækja loftmengunarráðstafanir

Loftmengun yfir London.
Loftmengun yfir London. AFP

Breska ríkisstjórnin er sökuð um að vanrækja skyldu sína til að vernda borgara sína fyrir ólöglegum og hættulegum stigum loftmengunar í sérstakri skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum sem fjallar um mannréttindi í tengslum við efnaúrgang. Þetta kemur fram á vef Guardian.

Baskut Tuncak, sérstakur skýrslugjafi Sameinuðu þjóðanna í mannréttindamálum tengdum efnaúrgangi, varaði við þessu í kjölfar staðreyndaöflunarferðar hans til Bretlands í boði ríkisstjórnarinnar í janúar á þessu ári. Skýrslan verður kynnt á fundi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í vikunni.

Tuncak segir mikla loftmengun í Bretlandi og að sér hafi verið verulega brugðið að þrátt fyrir ítrekaða dómsmálaráðgjöf haldi breska ríkisstjórnin áfram að svíkjast undan skyldum sínum til að tryggja loftgæði og verja heilsu borgara sinna.

Samkvæmt Guardian er slík alþjóðleg gagnrýni neyðarleg fyrir ríkisstjórnina þar sem stefna þeirra í loftmengunarmálum hefur tvisvar áður verið úrskurðuð ófullnægjandi. Áætlað er að um 40.000 Bretar látist fyrir aldur fram á ári hverju af sökum loftmengunar. Í London er ástandið hvað verst en borgir eins og Leeds, Birmingham, Bournemouth og Northampton hafa einnig ólöglegt magn köfnunarefnisins díoxíðs í andrúmsloftinu vegna útblásturs díselbíla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert