Leita enn lífs í lestarvögnunum

Björgunarfólk leitaði lífs í dag í sundurtættum vögnum eftir lestrarslys sem varð í norðurhluta Indlands í gær. Að minnsta kosti 23 létust. Þetta er fjórða stóra lestarslysið sem verður á Indlandi á þessu ári. Lestarkerfi landsins er að hruni komið og víða algjörlega úr sér gengið.

156 slösuðust í slysinu er varð þegar fjórtán lestarvagnar fóru út af sporinu í Uttar Pradesh-ríki um 130 kílómetrum frá höfuðborginni Nýju-Delí í gær, laugardag.

Vagnarnir hlóðust hver ofan á annan utan teinanna en lestin var á yfir 100 kílómetra hraða á klukkustund er lsysið varð. Vagnarnir fóru á nærliggjandi hús, m.a. skólabyggingu.

Á sunnudag hélt björgunarstarf áfram og notuðust björgunarmenn við vélsagir til að komast inn í vagnana þar sem leitað var með hjálp hunda.

Lögreglan segir að enn sé leitað að fólki í vögnunum, lífs eða liðnu.

Er slysið varð í gær hópaðist fólk á slysstað til að reyna að aðstoða farþegana. Margir lestarvagnanna voru á hvolfi og mikið beyglaðir. 

Sumir voru alvarlega slasaðir en aðrir hafa þegar verið útskrifaðir af sjúkrahúsum.

Indversk stjórnvöld hafa farið fram á að slysið verði rannsakað vandlega en ásakanir eru um að lestinni og lestarteinunum hafi ekki verið nægilega vel við haldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert