Skrúfa fyrir gosbrunna Vatíkansins

Skrúfað hefur verið fyrir 100 gosbrunna í Vatíkaninu.
Skrúfað hefur verið fyrir 100 gosbrunna í Vatíkaninu. AFP

Yfirvöld í Vatíkaninu hafa ákveðið að skrúfa fyrir 100 gosbrunna, þeirra á meðal tvo á Péturstorginu, vegna mikilla og langvarandi þurrka. Borgaryfirvöld í Róm hafa íhugað að grípa til vatnsskömmtunar vegna ástandsins.

Sumarið hefur verið einstaklega heitt í borginni en það fylgir á hæla tveggja þurra ára, þar sem úrkoma hefur verið undir meðallagi.

Að sögn Gregs Burkes, talsmanns Vatíkansins, mun þetta vera í fyrsta sinn sem yfirvöld þar ákveða að skrúfa fyrir gosbrunnana. Sagði hann í samtali við Reuters TV að um væri að ræða samstöðuyfirlýsingu Vatíkansins við íbúa Rómar.

Þá væri ákvörðunin í takt við afstöðu páfa til vistmála; að forðast sóun og færa fórnir þegar aðstæður krefjast.

Gosbrunnarnir á Péturstorginu sem nú standa þurrir eru eftir myndhöggvarana Gian Lorenzo Bernini og Carlo Maderno.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert