Byggðu vegg til að hindra móttöku flóttamanna

Veggurinn er 18 metra langur og 1,8 metra hár.
Veggurinn er 18 metra langur og 1,8 metra hár. AFP

Mótmælendur í bænum Séméac í Suðvestur-Frakklandi hafa byggt vegg fyrir inngang gamallar hótelbyggingar til að koma í veg fyrir að húsið verði notað til að taka á móti flóttamönnum.

Mótmælendurnir segja bæjaryfirvöld ekki hafa haft samráð við íbúa bæjarins um ákvörðun þess efnis að hýsa þar allt að 85 flóttamenn í húsinu. Tugir íbúa í Séméac gripu því til sinna ráða og reistu 18 metra langan og 1,8 metra háan vegg fyrir innganginn að Formule 1-hótelinu í bænum. Yfirvöld á svæðinu hafa ekki brugðist við vegna veggjarins.

„Við erum ekki á móti því að taka á móti flóttamönnum. En við verðum að taka tillit til borgaranna,“ segir Laurent Teixeira, talsmaður mótmælendanna, í samtali við AFP. Íbúarnir óttast að bærinn, þar sem íbúar eru 5.500 talsins, hafi ekki burði til að taka á móti flóttamönnunum.

Hótelbyggingin sem um ræðir og er ekki í notkun sem slík er ein margra sambærilegra í Frakklandi sem ríkið hefur keypt í þeim tilgangi að hýsa flóttamenn, marga hverja sem nú eru á götunni og eiga ekki í önnur hús að venda.

Árið 2015 veittu Frakkar 20.630 flóttamönnum hæli í landinu samkvæmt tölfræði Eurostat. BBC greinir frá.

Íbúar telja lítið bæjarsamfélagið ekki hafa burði til að taka …
Íbúar telja lítið bæjarsamfélagið ekki hafa burði til að taka á móti flóttafólkinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert