Mállaus eftir hörmungar stríðsins

Sjúklingar sitja og reykja sígarettur í einu herbergi sjúkrahússins, sem …
Sjúklingar sitja og reykja sígarettur í einu herbergi sjúkrahússins, sem er eina geðsjúkrahúsið í þeim hluta landsins sem er á valdi uppreisnarmanna. AFP

Það er lítið um íburð á geðsjúkrahúsinu í Azaz, í norðurhluta Sýrlands. Karlkyns sjúklingarnir eru með rökuð höfuð og ganga berfættir um húsagarðinn. Sumir eru klæddir í einkennisbúning en aðrir eru í stuttermabol og joggingbuxum.

Einn maður æpir á alla í kringum sig, en annar hlær með sjálfum sér. Sá þriðji syngur af innlifun og sýnir tannlausan munninn.

Á annarri hæð hússins eru kvenkyns sjúklingarnir klæddir mynstruðum kjólum og höfuðklútum með blómamynstri. Sumar brosa til gesta en aðrar liggja hreyfingarlausar í rúmum sínum. Ein kona er bundin föst í rúmi sínu.

Sumar kvennanna brosa, aðrar liggja hreyfingarlausar á rúmum sínum. Hörmungar …
Sumar kvennanna brosa, aðrar liggja hreyfingarlausar á rúmum sínum. Hörmungar Sýrlandsstríðsins hafa skilið eftir sig ófá ör og valdið mörgum andlegum erfiðleikum. AFP

Missti málið og getur hvorki sofið né borðað

Hörmungar Sýrlandsstríðsins hafa skilið eftir sig ófá ör og valdið mörgum andlegum erfiðleikum og starfsfólkið á eina geðsjúkrahúsinu í þeim hluta Sýrlands sem er á valdi uppreisnarmanna, gerir nú sitt besta til að sinna sjúklingum.

17 ára stúlka sem er illa farin andlega eftir átökin er í hópi sjúklinganna. „Hún sá ung börn sem höfðu verið drepin og dýr voru að leggja sér til munns,“ segir Dorar al-Sobh, annar lækna sjúkrahússins.

„Hún varð fyrir svo miklu áfalli að hún missti málið. Nú getur hún hvorki sofið né borðað [...] hún forðast alla.“

Einn karlanna í hópi sjúklinga kemur frá Raqqa. Hann kom heim og fann þar konu sína og sex börn látin eftir að sprengja hafði fallið á heimili þeirra. „Hann á erfitt með að sofa,“ segir Sobh og kveður endurminningar og martraðir sækja á manninn.

Nokkrir sjúklinganna voru vissulega veikir áður en Sýrlandsstríðið hófst, en aðrir eiga við áfallastreituröskun að stríða vegna stríðsins.

„Tilfellum hefur vissulega fjölgað, sérstaklega þunglyndi og áfallastreituröskun,“ segir Sobh.

Sjúklingar bíða í röð eftir mat á geðsjúkrahúsinu í Azas.
Sjúklingar bíða í röð eftir mat á geðsjúkrahúsinu í Azas. AFP

Pyntaðir og barðir í höfuðið

Hjúkrunarfræðingurinn Mohammed Munzer minnist þess er hann tók á móti sjúklingum sem höfðu tekið þátt í friðsömum mótmælum árið 2011, sem voru undanfari Sýrlandsstríðsins. „Þeir höfðu verið pyntaðir og voru barðir, sérstaklega í höfuðið og í kjölfarið gerðu andleg vandamál vart við sig,“ segir hann.

Aðrir hafa þróað með sér kvíða vegna sprengjuregnsins og ofbeldisins sem hefur kostað rúmlega 300.000 manns lífið.

„Hér er fólk sem þolir ekki hljóðið í flugvélum,“ segir Munzer.

Tæplega 140 manns dvelja á sjúkrahúsinu öllum stundum, en aðrir koma í dagvist.

Sjúklingar ráfuðu um göturnar

Sjúkrahúsið var upphaflega staðsett í Masaken Hanano, úthverfi Aleppo-borgar. Eftir að uppreisnarmenn tóku borgina yfir árið 2012 og átök hófust var sjúkrahúsið hins vegar flutt eftir að það varð fyrir árás. Fjöldi starfsmanna flúði þá á brott skildi sjúklinga eftir, sem sumir hverjir ráfuðu um göturnar.

Áhyggjufullir íbúar höfðu þá samband við tyrknesk góðgerðarsamtök sem í samstarfi við sýrlenska lækna fluttu sjúklingana á brott.

Þó að Azas hafi við og við orðið fyrir loftárásum hefur sjúkrahúsið sloppið til þessa. Mikill skortur er þó á lyfjum og þótt það berist stöku gjafir frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni reiða  stjórnendur sig að miklu leyti á lyf sem keypt eru í Sýrlandi eða nágrannaríkinu Tyrklandi.

Starfsfólk andlega örmagna

Áskoranirnar sem starfsfólkið þarf að takast á við geta líka verið yfirþyrmandi. „Við erum andlega örmagna,“ segir Sobh. „Stundum slá sjúklingar okkur eða bölva. Stundum förum við í nokkurra daga frí til að ná smá fjárlægð frá andrúmslofti spítalans.“

Hún segir starfsfólkið líka vinna ötult starf við að draga úr fordómum í garð þeirra sem eru með geðsjúkdóma og að það starf hafi skilað miklu í Azas. „Vera miðstöðvarinnar á þessu svæði er jákvæð. Íbúar samþykkja þetta núna og sjá geðsjúkdóma ekki lengur sem merki veikleika.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert