Einn stærsti ísjaki í sögunni

Vísindamenn höfðu lengi fylgst með sprungunni í jöklinum.
Vísindamenn höfðu lengi fylgst með sprungunni í jöklinum. AFP

Billjón tonna ísjaki hefur brotnað frá flotjökli sem umlykur Suðurskautslandið. Um er að ræða einn stærsta hafísjaka í sögunni, sem er meira en fjórum sinnum stærri en London.

Sérfræðingar hafa fylgst með stórri sprungu í Larsen C-flotjöklinum undanfarið en þar hefur ísjakinn „hangið á bláþræði“ að því er fram kemur í frétt Telegraph.

Vísindamenn tilkynntu svo í dag að sprungan væri loks farin í gegnum allan jökulinn, og því væri 5.800 ferkílómetra ísjakinn laus undan jöklinum.

Þróun jökulsins má sjá á myndinni, frá því í byrjun …
Þróun jökulsins má sjá á myndinni, frá því í byrjun júní þar til í lok júní. AFP

Hefur þetta því orðið til þess að stærð Larsen C-flotjökulsins hefur minnkað um 12 prósent. Þá er landslagið á Suðurskautslandinu nú breytt til frambúðar að sögn sérfræðinga frá háskólanum í Swansea.

Ísjakinn, sem hefur verið nefndur A68, brotnaði frá jöklinum einhvern tímann á síðustu þremur dögum.

„Við höfum verið að bíða eftir þessu í nokkra mánuði og það hefur komið okkur á óvart hversu langan tíma það tók fyrir sprunguna að ná í gegnum síðustu nokkra kílómetrana af ísnum,“ sagði Adrian Luckman, prófessor við háskólann í Swansea.

AFP

Munu sérfræðingar halda áfram að fylgjast með áhrifum sem þetta mun hafa á jökulinn – og örlögum ísjakans.

„Ísjakinn er einn sá stærsti sem gögn eru til um og það er erfitt að segja til um hvernig framvindan verður. Hann gæti ferðast í einu lagi, en líklegra er að hann brotni í minni ísjaka,“ sagði Luckman. „Hluti íssins gæti haldist á þessu sama svæði í áratugi, en aðrir hlutar gætu flotið að hlýrri svæðum.“

Sumir sérfræðingar hafa lýst áhyggjum af því að örlög Larsen C-jökulsins verði þau sömu og Larsen B-flotjökulsins sem brotnaði og eyddist loks árið 2002.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert