Sonur njósnara verður aftur kanadískur

Gömul mynd af þeim bræðrum, sem tekin var skömmu eftir …
Gömul mynd af þeim bræðrum, sem tekin var skömmu eftir að foreldrar þeirra voru afhjúpaðir. Skjáskot af vef Guardian

Sonur tveggja rússneskra KGB njósnara, sem voru afhjúpaðir og handteknir af bandarísku alríkislögreglunni FBI árið 2010, hefur nú endurheimt kanadískan ríkisborgararétt sinn eftir langa baráttu. Eldri bróðir hans berst hins vegar enn fyrir sínum ríkisborgararétti. The Guardian greinir frá.

Kanadísk stjórnvöld sviptu soninn, sem fæddist í Kanada og var gefið nafnið Alexander Foley, ríkisborgararéttinum eftir að foreldrar hans, réttnefnd; Andrei Bezrukov og Elena Vavilova, voru handtekin. Alexander var þá 16 ára.

Þá höfðu foreldrar hans villt á sér heimildir áratugum saman og þóst Kanadamenn. Sjálfur hafði Alexander alltaf staðið í þeirri meiningu að foreldrar hans hefðu fæðst í Kanada en síðar tekið upp bandarískan ríkisborgararétt.

Við sviptingu kanadíska ríkisborgararéttarins, urðu Alexander og Tim, bróðir hans rússneskir ríkisborgarar og voru þeim gefin rússnesk nöfn, þrátt fyrir að hafa aldrei haft nein tengsl við Rússland og ekki kunnað rússnesku. Við sviptinguna var vísað til ákvæðis í lögum þar sem heimilað er að leysa börn erlendra embættismanna, undan ríkisborgararétti.

Varð að fórna háskólanáminu

„Mér líður eins og ég hafi verið sviptur auðkenni mínu, vegna einhvers sem ég gat ekki borið neina ábyrgð á,“ sagði Alexander í samtali við the Guardian á síðasta ári.

Nú þegar dómstóll í Torontó hefur úrskurðað að hann fái kanadískan ríkisborgararétt á nýjan leik, segist hann mjög hamingjusamur, og að réttlætið hafi sigrað að lokum.

Hadayt Nazami, lögmaður Alexenders fagnar einnig niðurstöðunni og segir að ekki eigi að  vera hægt að refsa börnum fyrir eitthvað sem foreldar þeirra gera. Stjórnvöld í Kanada hafa nú 30 daga til að taka ákvörðun um hvort málinu verði áfrýjað til hæstaréttar. Nazami vonar þó að dómurinn standi og hefur fulla trú á því að Tim, bróðir Alexander, fá sömu niðurstöðu í sínu máli fyrr en síðar.

Hvorki Alexeander né Tim búa í Rússlandi en þeir hafa átt í vandræðum með að fá vegabréfsáritanir til Evrópulanda vegna fjölskyldusögu sinnar. Þá varð Alexander að hafna boði um inngöngu í kanadískan háskóla vegna þess að vegabréfsáritun hans var afturkölluð á síðustu stundu.

Njósarinn nú pólitískur greinandi

Líkt og áður sagði fæddust foreldrar þeirra í Rússlandi og báru upphaflega nöfnin Andrei Bezrukov og Elena Vavilova. Þau voru send á vegum KGB til Kanada í kringum 1980 og tóku upp nöfn og auðkenni Donald Heathfield og Tracy Ann Foley, sem þá voru látin.

Báðir synir þeirra fæddust í Kanada en fjölskyldan bjó einnig í Frakklandi og Bandaríkjunum. Bezrukov og Vavilova voru handtekin árið 2010 ásamt níu öðrum rússneskum njósnurum, en ekki er ljóst hvort þau náðu að koma höndum yfir leynilegar og viðkvæmar upplýsingar á meðan þau villtu á sér heimildir.

Bezrukov starfar nú sem pólitískur greinandi í Rússlandi og ráðgjafi forstjóra olíufyrirtækisins Rosneft, sem er stýrt af Igor Sechin, eins nánasta samstarfsmanns Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert